142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta mál er alveg borðleggjandi. Við þingmenn höfum svarið eið að stjórnarskránni, að halda hana, sem hlýtur alla vega að þýða að þá eigi stjórnarskráin að njóta vafans. Ég tók mynd af drengskaparheiti mínu. Við höfum öll fengið svona plagg, við skrifuðum undir það og á því segir: Ég undirritaður sem kosinn er þingmaður til Alþingis Íslendinga heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.

Persónuvernd, sú stofnun í stjórnsýslu okkar sem er falið að fylgjast með að persónuvernd sé til staðar, hefur sent umsögn, með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu.“

Persónuvernd hefur efasemdir um nauðsyn þess að komið sé á fót opinberum gagnagrunni með jafn víðtækum persónuupplýsingum og hér ræðir um til þess að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga. Persónuvernd er í vafa, hún efast, hún varar við og við þingmenn höfum svarið eið að stjórnarskránni.