142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég gleymdi alveg að vísa í ákveðna tilvísun sem kom fram í gær sem mér fannst lýsa mjög vel því sem er í gangi hér. Ég sá hana á hinni víðfrægu fésbók.

Hér er tilvitnun í Pétur Gunnarsson rithöfund, með leyfi forseta:

„Ein helsta ástæða þess að ekki er hægt að vinna samkvæmt óskum stjórnar Persónuverndar að því að virða friðhelgi einkalífs í frumvarpi um Hagstofu Íslands er hefð sú að það yrði íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtæki að svara spurningalistum ef stuðst yrði við úrtaksaðferð í stað stóra bróður-aðferða við öflun upplýsinga. Vegna þessa er ekki tekið mið af ábendingum um að frumvarpið brjóti gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Það upplýsti þingmaðurinn Líneik Anna Sævarsdóttir á Alþingi í dag, en hún er framsögumaður málsins fyrir hönd ríkisstjórnar meiri hlutans.“

Hér höfum við kjarna málsins og af því að við erum að flýta okkur og við nennum ekki að tryggja að fjármálastofnanir vinni vinnuna sína þá ætlum við að fara inn á mjög svo grátt svæði. Mér finnst það mjög alvarlegt að við ætlum að brjóta gegn stjórnarskrá okkar, að fara lengra, seilast lengra og dýpra inn á þessi gráu svæði. Það er einmitt hlutverk okkar að tryggja að lögin séu þess eðlis að þau séu ekki á gráu svæði, að þau haldi.

Ég ítreka því enn og aftur að það er leið út úr þessu. Sú leið er þess eðlis að ég mundi vera mjög stolt af fólkinu sem ég vinn með ef það mundi þora að skrifa löggjöf sem heldur. Ef einhverjir í samfélaginu fylgjast með þessum umræðum þá hvet ég það ágæta fólk, sem ég vil þakka fyrir að fylgjast með, til þess að hlusta á ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar því að þar kemur hann með mjög góða lausn á málinu. Og ef við þingmenn berum gæfu til að auka á virðingu þessarar stofnunar — það er nefnilega ekki virðingarvert að taka þátt í því að samþykkja og ýta áfram lögum sem eru ónýt. Það eykur ekki á virðingu þessa vinnustaðar. Það er líka ákveðið virðingarleysi þegar í ljós kemur að einhver lög eru meingölluð, það er virðingarleysi að hlusta ekki á rök eða hugmyndir um leiðir út úr því til þess að gera lögin okkar betri. Það er nú bara þannig. Það er fullkomið virðingarleysi og það er einmitt ein af þeim ástæðum sem fram komu í skýrslunni sem Alþingi lét gera, fyrir því af hverju fólk ber ekki virðingu fyrir þessari stofnun okkar.

Einn af þeim þáttum sem flestir litu á sem meginorsök þess að þessi vinnustaður nýtur ekki virðingar, eða réttara sagt við sem á honum störfum, er að við berum ekki virðingu fyrir skoðunum hver annars eða tillögum hver annars og kunnum ekki að vinna saman. Nú höfum við boðið upp á leið út úr því, leið sem ekki er umdeild en samt skal þverskallast í gegnum þetta mál bara vegna þess að maður hefur völdin. Mér finnst smán að því ef það verður þannig, en ég mun bera mikla virðingu fyrir þeim þingmönnum sem þora.