142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Það er miður hversu lítil áhersla hefur verið lögð á leigumarkaðinn í gegnum tíðina eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom réttilega inn á, og í rauninni hvað aðgerðir stjórnvalda í þágu leigjenda hafa verið ómarkvissar. Það hefur eiginlega verið yfirlýst markmið að fólk kaupi eigið húsnæði. Þessi stefna kristallaðist í rauninni í loforðunum um 90% lánin, máli sem naut stuðnings allra flokka.

Við vitum alveg að staðan á leigumarkaði er óviðunandi, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Í mörgum bæjum standa tómar íbúðir í eigu banka og Íbúðalánasjóðs á sama tíma og mikil þörf er fyrir leiguhúsnæði. Brýnna aðgerða er þörf og við þurfum held ég ekki enn einn vinnuhópinn. Ég held að það sé kominn tími til að lesa þær fjölmörgu skýrslur sem hafa verið skrifaðar um þetta mál og ganga í verkin.

Ég hvet stjórnvöld til að nýta sér þá þekkingu sem er til staðar nú þegar, ekki síst hjá leigjendaaðstoðinni sem Neytendasamtökin hafa rekið undanfarin ár. Þau hafa t.d. bent á skort á eftirliti með aðilum sem stunda útleigu í atvinnuskyni og að það skorti úrræði þegar þessir aðilar brjóta lög. Þetta er stórt vandamál.

Ég fagna þessari umræðu og ég hef fulla trú á að hæstv. félagsmálaráðherra gangi í málið af röggsemi og fagna áhuga hennar á málinu. Við í Bjartri framtíð munum einnig styðja þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi og fögnum þeirri þingsályktunartillögu líka.