142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að vekja máls á því mikilvæga málefni sem við ræðum í dag. Jafnframt var mjög áhugavert að hlýða á málflutning ráðherrans sem fer með þennan málaflokk. Er ljóst miðað við umræðuna að menn eru sammála um að nú þurfum við að taka saman höndum og reyna að finna út með hvaða hætti við getum komið til móts við alla þá Íslendinga, sem eru nú allar fjölskyldur landsins, sem þurfa að útvega sér húsnæði og þak yfir höfuðið.

En til þess að einhver einn geti leigt húsnæði þá þarf einhver annar að hafa fjárfest í húsnæði og hafa áhuga á því að leigja út. Markaðurinn hangir því óneitanlega svolítið saman á þessum tveim þáttum, þ.e. annars vegar hvernig gengur hjá fólki að fjármagna húsnæðiskaup og svo hins vegar hvernig markaðurinn gagnvart leigjendum er. Þetta er því heildstætt verkefni, það er mikið verk fyrir höndum. Ég trúi því að ráðherra þessara mála taki málin föstum tökum og komi með einhverjar leiðir sem við getum sagt stolt eftir nokkur ár að hafi skilað árangri.

Einn hv. þingmaður, hv. þm. Ögmundur Jónasson, taldi að besta leiðin til þess að laga þessi mál væri að hækka laun. Auðvitað væri það mjög gott ef það væri svo einfalt. En til þess að hægt sé að hækka laun þannig að það skili einhverjum árangri þarf auðvitað að auka framleiðni. Það þarf jafnframt að skoða skattlagningu á atvinnulífið vegna þess að tryggingagjaldið er ekkert annað en skattur á laun, þannig hangir þetta saman. Það dugar ekki eitt og sér að hækka launin, þá hækkar allt verðlag í landinu og þá fer af stað rússíbani sem við þekkjum öll frá því á árum áður. Það er ekki það sem við viljum gera hér og það mun ekki verða lausnin á húsnæðisvanda Íslendinga.