142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég finn mig knúna til þess að koma og taka þátt í 2. umr. þótt ég hafi ekki komið og fjallað um málið við 1. umr. fyrr í sumar. Það er náttúrlega búið að vera hér inni í þinginu og mikil fyrirstaða var við að afgreiða málið fyrr í sumar, ekki eingöngu úr liði minni hlutans heldur einnig úr stjórnarþingflokkunum. Mér finnst leiðinlegt eftir allan þann tíma sem þetta mál hefur verið hér til umfjöllunar að ekki hafi verið hægt að ganga lengra með það að mæta kröfum minni hlutans, kröfum sem eru lagðar fram ekki út frá pólitískum dyntum heldur út frá áhyggjum Persónuverndar varðandi persónuvernd og mannréttindi.

Fram kemur í áliti minni hlutans að nefndarmenn störfuðu af fullum heilindum með meiri hlutanum að því að endurbæta frumvarpið en telja alls ekki nógu langt gengið og telja jafnframt að hægt sé að ná sátt um annað frumvarp um svipað efni og leggja fram á haustþingi.

Það sem mér finnst setja málið í einkennilegra ljós, af því að hér erum við að tala um frumvarp sem kann að ógna ákvæðum stjórnarskrár, er af hverju þurfi að fara með það í gegn núna. Mér finnst óeðlilegt að setja þingmenn í þá stöðu. Þetta á að greiða fyrir úrlausn skuldavandans. Við erum að heimila gríðarlega söfnun fjármálalegra persónulegra upplýsinga til að greiða fyrir úrvinnslu á skuldavandanum, en við höfum engar upplýsingar um með hvaða hætti sú vinna á að fara fram. Það liggur ekki fyrir hvaða lán eru undir. Talað hefur verið um forsendubrest, leiðréttingar, afnám verðtryggingar. Þetta ræddum við allt hér í sumar. Ég átti samræður við hæstv. menntamálaráðherra en hann gat ekki gefið skýr svör um hvort Lánasjóður íslenskra námsmanna félli undir hið heimssögulega plan Framsóknarflokksins, hann gat ekki svarað því. En við ætlum svona til vonar og vara að gefa Hagstofunni tækifæri til þess að afla upplýsinga um stöðu fólks sem er með lán hjá sjóðnum. Af hverju, ef ekki liggur fyrir hvert hið stóra heimssögulega plan er?

Ég vil áður en hægt er að ljúka málinu í þinginu segja að eðlilegt sé að við fáum skýrari upplýsingar sem sé þá hægt að leggja fram í nefndinni og taka til umræðu í þingsal um hvers konar aðgerðum við eigum von á. Það að ógna persónuverndar- og mannréttindakafla stjórnarskrárinnar til að afla upplýsinga um aðgerðir sem enginn veit hvernig eiga að líta út finnst mér of langt gengið.

Varðandi stóra skuldavandamálið, heimssögulega prógrammið frá Framsóknarflokknum, þá samþykkti þingið, meiri hluti þingsins, heilmikla áætlun í þeim efnum sem fól í sér fyrst og fremst nefndastarf og nefndir sem áttu að skila tillögum á mismunandi tímum. (Gripið fram í: Það var líka heimssögulegt.) Heimssögulegt.

Það var mjög erfitt að festa hendur nákvæmlega á hvað þær nefndir áttu að gera. Það var frekar óljóst og gefur ekki tilefni til svo ítarlegrar upplýsingasöfnunar fyrir fram sem þetta frumvarp boðar.

Síðan kemur fram þegar maður les gögn málsins að upplýsingar samkvæmt þessu munu ekki liggja fyrir áður en starfshópar forsætisráðherra og fleiri ráðherra ljúka störfum, þannig að þeir virðast þá vera að skila upplýsingum um vanda sem þeir þekkja ekki umfangið á. Þessi upplýsingaöflun mun ekki styðja þau störf með neinum hætti.

Herra forseti. Mér finnst í raun óviðunandi að við séum með þetta mál á dagskrá varðandi þessi íþyngjandi ákvæði án þess að vita til hvers það er. Það er stórum spurningum ósvarað þannig að ég geri ráð fyrir að það fari — eða ég mun a.m.k. beita mér fyrir því og ég hygg að minni hlutinn hafi íhugað það, að málið fari til nefndar á milli umræðna og þar fáist svör við því hvernig Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skilgreina forsendubrest, hvernig þeir skilgreina leiðréttingu og segja okkur þá að það séu örugglega öll verðtryggð lán undir í heimssöguplaninu. Ég hef leitað eftir svörum við því, enda algjörlega forkastanlegt ef einhverjum dettur í hug að leiðrétta sum verðtryggð lán og ekki önnur, en hef ekki fengið skýr svör frá menntamálaráðherra, ég á það í einhverri fréttaklippu að hv. formaður fjárlaganefndar taldi þau lán ekki undir enda kannski ekki talið mikils virði af núverandi ríkisstjórn að fólk fjárfesti í menntun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri. Ég vil bara segja að ég tel fráleitt að málið komist til 3. umr. nema fyrir liggi af hverju hæstv. ríkisstjórn telur sig þurfa að sveigja ákvæði stjórnarskrár sem lúta að persónuvernd og mannréttindum.