142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að þakka fyrir gagnlega umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, með síðari breytingum.

Mig langar að koma inn á tvö atriði sem komið hafa fram í umræðunum og byggja á einhvers konar misskilningi. Í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar kom fram að skilgreining á því hvaða upplýsinga er þörf hafi komið frá sérfræðingahópi forsætisráðherra. Þarna er einhver misskilningur á ferðinni því að Hagstofa Íslands hefur unnið að undirbúningi verkefnisins frá því að Alþingi fól stofnuninni verkefnið með fjárlögum 2012. Það voru því starfsmenn Hagstofunnar sem skilgreindu breyturnar sem þarf að skoða, þ.e. afmörkuðu verkefnin og upplýsingarnar til að vinna tölfræðiskýrslur. Grundvallaratriði varðandi tölfræðiskýrslur og störf Hagstofunnar (Forseti hringir.) er að þær verði ekki notaðar til stjórnvaldsákvarðana gagnvart einstaklingum eða lögaðilum.

Ég tek undir það að frumvarpinu verði vísað til nefndar á milli 2. og 3. umr. (Forseti hringir.) ef það verður til þess að skýra málið frekar.