142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það skringilega við þetta mál og það sem hefur birst í umræðum í nefndinni, þó að málið hafi tekið breytingum til batnaðar þar, er að markmið þess eru svo óljós. Ég hef enn ekki áttað mig á því út frá þeim umræðum sem hér hafa verið hvaða markmiðum eigi nákvæmlega að ná og hvernig nákvæmlega þetta frumvarp á að ná þeim.

Hitt sem ég vil nefna er að hv. þingmenn hljóta að taka það mjög alvarlega þegar stofnun á borð við Persónuvernd mælir gegn frumvarpi á borð við þetta. Það er einn af þeim lærdómum sem okkur var ætlað að draga af skýrslu þingmannanefndar á sínum tíma og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þ.e. að það væri mjög mikilvægt að þingheimur og löggjafarvaldið litu til þess þegar slíkar stofnanir settu álit fram. Þó að Persónuvernd hafi sent frá sér það álit að frumvarpið hafi tekið breytingum til batnaðar telur hún enn (Forseti hringir.) að þessi forsenda hafi ekki breyst og leggst því gegn málinu. Á það tel ég að þingheimur eigi að hlusta.