142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ég sá það í fyrsta skipti þegar því var dreift í þingflokknum. Ég er þó eini tryggingafræðingurinn á þinginu og hef ekkert verið hafður í ráðum með það, en það skiptir kannski ekki máli.

Talað hefur verið um að laga þurfi stöðu sjóðanna áður en farið verður út í sameiningu allra lífeyrissjóða og þeir fái sameiginleg réttindi. Það er mjög verðugt verkefni. Það er í bráðabirgðaákvæði sem við erum að tala um að framlengja. Það gerir hins vegar að verkum að við sjáum ekki hinn raunverulega vanda sem er til staðar og hverfur ekkert við þetta frumvarp. Það verður áfram nákvæmlega sami vandinn í A-deild LSR, sem er 61 milljarður. Sú deild átti að standa undir sér, herra forseti, alla tíð en hefur ekki gert það. Það vantar 61 milljarð þar inn. Ég hefði talið eðlilegt að sýna þann 61 milljarð þegar ný ríkisstjórn tæki við þeirri stöðu sem fyrri ríkisstjórn skildi eftir. Þá finnst mér rétt að sýna þær skuldbindingar sem hafa safnast upp og ekki bara hjá þeirri ríkisstjórn heldur ríkisstjórninni þar á undan. Það er dálítið hættulegt að sýna ekki stöðuna.

En varðandi sameiginleg réttindi allra landsmanna má segja að þrjú meginkerfi séu í gangi á Íslandi. Bestu lífeyrisréttindin eru í B-deild LSR sem var skilin eftir þegar lífeyriskerfi opinberra starfsmanna var stokkað upp 1997. Inn í þá deild borga enn þá 4.300 manns, enn eru 4.300 opinberir starfsmenn sem borga þangað inn og auka réttindin sem eru ein þau bestu og afskaplega dýr fyrir ríkissjóð. Þeir borga ekki nema 4% sjálfir, ríkissjóður 6% og skuldbindingin er gífurleg. Hún er 400–500 milljarðar eftir því hvernig allar undirstofnanirnar eru flokkaðar. Þetta hefur ekki verið fært á fjárlög. Ég hefði viljað sjá það fyrr en seinna að þetta yrði fært á fjárlög nema það standi ekki til að standa við kjarasamninga við opinbera starfsmenn. Þetta byggir á kjarasamningum. Ég hefði talið að það gæti komið inn í umræðuna um sameiginleg réttindi allra opinberra starfsmanna að þessi skuldbinding hefur ekkert verið sett í fjárlög og fjármálaráðherra framtíðarinnar getur bara neitað að borga þetta því að hann eigi ekki pening og þá er engin ríkisábyrgð á því. Ég veit ekki hvernig það fer.

Þetta er B-deildin, það fyrsta. Hún er vissulega deyjandi, þeim fækkar stöðugt sem þangað greiða en þeir eru enn þá 4.300 og tugur þúsunda tekur lífeyri.

Síðan er það A-deildin sem var stofnuð 1997 og átti að standa undir sér, tók alla nýja opinbera starfsmenn inn og þá sem völdu þá deild. Þar hefur hlaðist upp skuldbinding upp á 61 milljarð, þ.e. um síðustu áramót, þrátt fyrir að í lögunum stóð lengi vel að stjórn sjóðsins bæri að leggja til hækkun á iðgjaldi. Iðgjaldið þarf sennilega að vera 19,5% til að standa undir skuldbindingum sjóðsins til langframa í stað þess að í hefðbundnum sjóðum er iðgjaldið 12%, þar af eru 7,5% af launum opinberra starfsmanna. Ég hef sem sagt lagt það til og legg það til hérna að laun allra opinberra starfsmanna verði hækkuð um þessi 7,5% og iðgjaldið verði hækkað upp í 19,5% og ríkissjóður borgi 8% en starfsmaðurinn borgi rest. Við það að hækka launin um 7,5% og láta menn borga þessi 7,5% beint þá gerist ekki neitt vegna þess að þetta er hvort sem er skattfrjálst fyrir báða aðila en þá kemur í ljós hvers virði lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru. Þá sést hvaða laun þeir eru raunverulega með. Þeir eru nefnilega með hærri laun en sýnist á pappírnum vegna þessara góðu lífeyrisréttinda sem ekki hefur verið tekið á.

Svo ég tali um þessa þrískiptingu lífeyrismarkaðarins eða hvað á að kalla þetta þá eru náttúrlega allir hinir sem ekki eru opinberir starfsmenn og margir opinberir starfsmenn líka sem eru í almennu sjóðunum. Þar er iðgjaldið 12% og á að svara til réttindanna sem eru sem því nemur lægri. Þetta er vandinn við það að samræma kerfið. Það getur verið að A-deildin sé með of góð réttindi til að almenni markaðurinn geti staðið undir því því að það þýðir annaðhvort hækkun iðgjalda, lækkun lífeyrisréttinda eða hækkun ellilífeyrisaldurs sem menn hafa reyndar verið að tala um og gæti verið hluti af þeim pakka að samræma lífeyrisréttindin en þá þarf að hækka lífeyrisaldurinn töluvert mikið, upp í 70 ár og jafnvel 75 ár, til að ná því jafnvægi. Ég held að það sé ráð að taka á þessu.

Það sem ruglar þetta dæmi allt saman er að inni í lífeyrissjóðunum hleðst núna gervieign. Ég held því fram að á hlutabréfamarkaði á Íslandi sé ákveðin bóla í gangi vegna þess að lífeyrissjóðirnir geti ekki fjárfest annars staðar, nema hjá ríkinu í spariskírteinum og húsnæðisbréfum. Lífeyrissjóðirnir eru með yfir 100 milljarða á ári til ráðstöfunar sem þeir verða að ráðstafa einhvern veginn. Raunvextir á skuldabréfamarkaði hafa lækkað — hækkuðu reyndar eilítið núna en voru 2,6% síðast þegar ég leit á þá og langt undir því 3,5% ávöxtunarviðmiði sem útreikningar lífeyrissjóðanna ganga út frá, sem þýðir að staða þeirra versnar sífellt meðan staðan er þessi. Þetta tengist því að gífurlegar krónueignir erlendra kröfuhafa eru í gangi í þjóðfélaginu sem keppa við lífeyrissjóðina um ávöxtun. Það er því margt sem er bjagað í lífeyrissjóðunum og ég held að rétt sé að ræða það beint út.

Í 8. gr. er talað um að ríki eða sveitarfélög, aðallega sveitarfélög, geti gefið út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði og heimilt sé að taka við þeim. Þá vil ég benda á að ábyrgð sveitarfélaga er mjög skrýtin, hún er nánast engin. Sveitarfélag hefur ákveðnar skuldbindingar. Það er ekki hægt að bjóða upp eignir þess og ef sveitarfélagið getur ekki greitt og það gerðist með Hofsós á sínum tíma þá bara verður kröfuhafinn, í þessu tilfelli lífeyrissjóðurinn, að bíða þolinmóður þar til sveitarfélagið getur einhvern tíma borgað. Ég sé ekki almennilega hvað þetta þýðir eiginlega og ég mun spyrjast fyrir um það í nefndinni, sveitarfélag sem borgar hvort sem er ekki og skuldar. Það er líka krafa á sveitarfélagið en það er skammtímaskuld. Það er spurning hvort eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga líti á svona skuldabréf sem einhvers konar lausn á þeim vanda. Það er mjög varasamt að leyfa sveitarfélögum að skulda vegna þess að það er í raun og veru engin ábyrgð á þeim skuldbindingum, ekki ríkisábyrgð og ekki sveitarfélagsins nema það geti borgað. Svo getur það náttúrlega gerst að allir íbúarnir flytji burt eða meginhlutinn eða stórfyrirtæki eða eitthvað slíkt og þá er enginn til að borga. Þá er spurning hver sé réttarstaða lífeyrisþegans sem á kröfu sem byggir á svona skuldabréfi. Ég vil því skoða þetta mjög nákvæmlega.

Það sem skiptir kannski mestu í þessu frumvarpi, sem lætur lítið yfir sér, er að ákvæði um að taka á vanda lífeyrissjóðanna, þ.e. aðallega A-deildinni, er frestað. Ég hefði notað tækifærið, verandi hæstv. ný ríkisstjórn, og sýnt allar skuldbindingar sem menn eru að taka yfir, bara sýnt að þær eru þarna. Þær eru ekki að fara neitt og þær fara ekki með þessu frumvarpi, þær eru bara ekki sýndar. Það finnst mér vera svo alvarlegt mál að ég á erfitt með að styðja þetta frumvarp. Ég vil sýna skuldbindingarnar. Ég vil sýna skattgreiðendum, ég vil sýna börnunum okkar og ég vil sýna öllum hvað íslenska þjóðin skuldar í framtíðarskuldbindingum. Hér er verið að hopa frá því að sýna þær skuldbindingar. Þetta eru mínar hugleiðingar með þessu frumvarpi.

Ég á sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar og mun þar spyrja þeirra spurninga sem ég þarf og fæ kannski þau svör að ég geti vel við unað og greitt þessu atkvæði.