142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

40. mál
[19:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ágæta ræðu og í raun um margt ágætt mál. Mig langar til að spyrja hann einnar spurningar. Hvernig stendur á því að menn fjárfesta ekki í íbúð til að leigja út? Leigan er orðin mjög há. Hvernig stendur þá á því að menn fjárfesta ekki til að leigja út íbúð? Nú eru vextir mjög lágir á sparisjóðsinnstæðum. Þeir eru neikvæðir nema menn bindi þær í þrjú ár og treysti bankanum til að standa í þrjú ár. Þá fá þeir verðtryggingu en að öðru leyti brennur innstæðan upp og brennur upp mjög hratt. Hún er skattlögð og vextir eru undir verðbólgu. Innstæður eru að brenna upp og það er því ekki gæfulegur sparnaðarkostur. Þá er spurningin: Af hverju fjárfesta menn ekki í íbúðum og leigja þær út?

Í tillögunni er komið inn á að það eigi að undanþiggja útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti. Það þýðir að flutningsmenn telja að fjármagnstekjuskatturinn sé orðinn of hár. Hann er nú ekki nema 14% á húsaleigu því að 70% af leigunni eru skattskyld, 20% skattur. Spurningin er því mjög einföld: Hvernig stendur á því að til dæmis í Grundarfirði kaupa menn ekki íbúð, í staðinn fyrir að eiga sparifé eða kaupa sér bíl eða eitthvað slíkt svo að maður tali nú ekki um dýr úr, til að koma peningunum einhvers staðar í fjárfestingu? Hvernig stendur á að menn kaupa ekki íbúð og leigja hana þegar svona mikil eftirspurn er eftir leigu og leigan svona há?