142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

40. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er nú oft betri og gleggri en ég í því að reikna út hvata í hagkerfinu og ég hlakka til að heyra hans útleggingu á þessu. Af því að hann tók dæmi af Grundarfirði þá held ég að stóra vandamálið þar sé skortur á framboði á íbúðum yfir höfuð, fáar íbúðir liggja á lausu. Það eru hins vegar dæmi um þetta úti um land. Á Bíldudal er fyrirtæki sem er að hasla sér völl í fiskeldi og það er búið að kaupa heila blokk vegna þess að það gerir ráð fyrir því að þurfa á því að halda að hafa húsnæði fyrir starfsmenn sína. En byggingarkostnaður er auðvitað langt umfram kaupverð á þessum stöðum eins og hv. þingmaður þekkir vel.

Ég er ekki sannfærður um að fjármagnstekjuskattur sé almennt of hár. Ástæðan fyrir því að við viljum undanþiggja eina íbúð fjármagnstekjuskatti í þessari tillögu er að við viljum reyna að hvetja sem flesta til að leigja út frá sér, sem bráðaaðgerð auðvitað, þannig að fólk sem miklar kannski fyrir sér ónæðið af því að leigja út litla íbúð í kjallaranum geri það því að hagnaðarvonin sé þá meiri en ella.

Að því er varðar almennt rekstrarumhverfi leigufélaganna er mikilvægt að við hvetjum ekki bara til þess að einstaklingar leigi út frá sér í 12 mánuði í senn eða slíkt, heldur að það séu til raunveruleg langtímaleigufélög sem ætli sér að starfa til áratuga og jafnvel árhundraða eins og dæmi eru til um í nágrannalöndunum. Til þess þarf kerfi sem tryggir að þau greiði sér ekki út ótæpilegan hagnað, tryggir að þau axli samfélagslega ábyrgð og standi undir henni.

Að síðustu eru auðvitað dæmi um að menn geri þetta, ég þekki dæmi um það hjá kunningjum mínum að menn eru að kaupa íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, gera upp og leigja út vegna þess hversu hátt leiguverðið er orðið.