142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

40. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að því leyti að ég held að athugasemdir hans nái vel utan um vandann sem fylgir byggingu nýrra íbúð. Ef menn ætla að byggja nýjar íbúðir til útleigu er mest eftirspurn eftir litlum íbúðum og að mínu viti er búið að gera það of snúið að byggja þær með nýjustu breytingum á byggingarreglugerð. Á meðan geta menn keypt einstakar íbúðir á bestu stöðum. Því til viðbótar þurfa menn auðvitað lóð á besta stað ef þeir ætla að vera öruggir um að koma íbúðunum út og ekki sitja uppi með þær. Þess vegna sér maður meira um það að einstaklingar séu að kaupa stakar, litlar íbúðir á besta stað og leigja þær út.

Það er mikið tekið að kenna Evrópusambandinu um allt og vera með vammir og skammir um það. Ég held að ekki sé hægt að kenna því um byggingarreglugerð sem er okkar eigin fjötur. Þetta er auðvitað umhugsunarefni. Á annan kantinn viljum við algilda hönnun og við viljum auka aðgengi fatlaðra og bæta aðstæður en það er auðvitað skrýtið að taka slíkar stórfelldar breytingar á byggingarreglugerð í einu vetfangi þannig að heilu og hálfu borgarhverfin sem óvart eru vinsælustu hverfi borgarinnar eru orðin bullandi ólögleg. Það er bara bannað að byggja íbúðir eins og þorri þjóðarinnar þráir að búa í. Það eru orðin mjög öfugsnúin skilaboð ef vinsælustu borgarhverfin þar sem verðið er hæst eru skyndilega orðin þannig að það má ekki byggja eins íbúðir annars staðar eða á auðum lóðum.

Ég held að við verðum að snúa til baka. Það er augljóst að kröfurnar til dæmis hvað varðar aðskilda salernisaðstöðu, kröfur um geymslu, allar kröfurnar um gangapláss, allar kröfurnar um geymslur yfir höfuð, eru of íþyngjandi til að henta þörfum fólksins sem við viljum byggja fyrir.