142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

umfjöllun nefnda um skýrslu um Íbúðalánasjóð.

[15:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að upplýsa um umfjöllunina í fjárlaganefnd í morgun þó að mér sé algerlega fyrirmunað að skilja hvernig menn geta fjallað um gjaldþrot Íbúðalánasjóðs og þá stöðu sem sjóðurinn er nú í eftir þau alvarlegu mistök sem þar voru gerð án þess að fjalla þá um leið um orsakir þess sem farið er yfir í nefndri skýrslu.

Ég vil svona almennt talað mælast til þess að nefndir þingsins fái að taka á dagskrá og til umfjöllunar þau málefni sem undir þær heyra og þær telja brýnt og minni á að samkvæmt þingsköpum þarf ekki nema þrjá þingmenn í tiltekinni þingnefnd til að biðja um að tiltekið málefni sé tekið á dagskrá þeirrar nefndar og tilteknir aðilar kallaðir fyrir hana, þá skal orðið við því. Ég geri ráð fyrir því að sé slíkt uppi í velferðarnefnd þá hljóti að verða við því orðið. Við hvað eru menn hræddir í opinberri umfjöllun um málefni Íbúðalánasjóðs?