142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

umfjöllun nefnda um skýrslu um Íbúðalánasjóð.

[15:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það var ekki tilgangur minn að efna hér til langrar umræðu um þetta álitamál eða fara að munnhöggvast um efnið. Ég vil þó þakka hæstv. forseta vorum fyrir að hafa tekið upp þá nýbreytni, sem er til fyrirmyndar, að útskýra í löngu máli hvað hann hyggst fyrir og hvernig hann túlkar mál. Það er til fyrirmyndar vegna þess að það hefur oftlega verið hér að menn spyrja forseta og hafa ekki fengið eitt einasta orð upp úr forseta um hvað hann hyggst fyrir í tilteknum málum.

En það sem þessi umræða hefur þó dregið fram er að það geta verið mjög óljós skil á milli verkefna einstakra nefnda og hvað einstaka nefndir eru að fjalla um. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar um það sem liðið er. Síðan tekur eitthvað nýtt við, þ.e. framhaldið og hvernig á að vinna með það, hvaða lögum þarf að breyta o.s.frv. í framhaldinu. Það er að sjálfsögðu fagnefndin, velferðarnefnd í þessu tilfelli, sem mun fjalla um þau mál að því er varðar húsnæðismálin og Íbúðalánasjóð.

Hver og ein nefnd getur samkvæmt þingsköpum tekið til umfjöllunar mál sem eru á hennar málasviði hvenær sem er og það einnig utan þingtíma, eins og (Forseti hringir.) þingsköpin kveða á um. Mér finnst eðlilegt að velferðarnefnd taki að minnsta kosti þetta mál og framhald málsins til umfjöllunar.