142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

aðgangur að landbúnaðarmarkaði ESB.

[15:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið bárust af því fréttir að Mjólkursamsalan væri farin að hafa af því umtalsverðar tekjur að selja skyr í útlöndum með sérleyfi. Svarta hliðin á þessari frétt er sú að skyrið er unnið í útlöndum vegna þess að við höfum ekki aðgang að mikilvægasta útflutningsmarkaði okkar, Evrópusambandsmarkaði, fyrir landbúnaðarvörur. Með öðrum orðum veldur staða okkar inn EES og utan Evrópusambandsins því að við flytjum störf úr landi. Það eru ekki íslenskir bændur sem fá að framleiða mjólk í þetta skyr og það eru ekki íslenskar hendur sem koma að því að vinna þetta skyr fyrir erlenda markaði.

Hæstv. forsætisráðherra er, eins og ég, mikill áhugamaður um uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum. En nú er það orðið ljóst, og ljósara en oftast áður með þessu dæmi, að heimóttarskapur okkar getur verulega komið í veg fyrir að við getum nýtt okkur tækifæri til atvinnusóknar í hinum dreifðu byggðum. Það er að sannast enn einn ganginn að vöxtur og viðgangur gamalla atvinnugreina, eins og sjávarútvegs og landbúnaðar, byggir fyrst og fremst á góðum markaðsaðgangi. Þegar hann er ekki fyrir hendi er atvinnusókn í dreifbýlinu í stórri hættu.

Allt hlýtur þetta að vekja okkur til umhugsunar um hver hin raunverulega atvinnustefna er gagnvart hinum dreifðu byggðum. Stefnir ríkisstjórnin að því að auka markaðsaðgang okkar fyrir landbúnað og sjávarútveg inn á okkar mikilvægasta útflutningsmarkað? Er það markmið ríkisstjórnarinnar? Hvað annað hyggst ríkisstjórnin gera til að styðja við atvinnuþróun í hinum dreifðu byggðum? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við því að núna verði IPA-styrkir upp á 3,8 milljarða ekki að veruleika og verði ekki til þess að styðja við fjölbreytta atvinnuþróun í hinum dreifðu byggðum? Hefur þessi ríkisstjórn með öðrum orðum einhverja sóknarstefnu fyrir hönd atvinnulífs á landsbyggðinni? Ef svo er væri gaman að heyra í hverju hún felst.