142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa.

[15:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur verið töluverð umræða um þá stöðu sem upp er komin varðandi túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa. Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls voru nýlega staðfest á Alþingi með stuðningi allra þingmanna og var það stór dagur í baráttusögu táknmálsins. Alla tíð hefur samt reynst mjög erfitt að festa í sessi réttinn til túlkaþjónustu í daglegu lífi en í því felst til dæmis túlkaþjónusta á húsfundum og samskipti við fjármálastofnanir, lögmenn, fasteignasala og fleiri.

Stór þáttur í túlkaþjónustu í daglegu lífi felst í túlkun á vinnustöðum auk þess sem túlkaþjónusta er mikilvægur þáttur foreldra í tómstunda- og menningarstarfi barna sinna. Þetta er saga langrar baráttu en það var mikið fagnaðarefni þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, tók af skarið með því að tryggja fjármagn í sjóð sem var sérstaklega ætlaður til túlkunar af þessu tagi. Þetta var árið 2004. Allt frá þeim tíma til dagsins í dag hefur verið tryggð sérstök fjárveiting til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu í daglegu lífi.

Nú er svo komið að fjárveiting þessa árs til umræddrar túlkaþjónustu er upp urin og athygli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar vakin á því. Ráðherrann hefur í framhaldinu tilkynnt að ráðuneytið hafi ekki tök á að mæta þörf á auknu fjárframlagi í sjóðinn og vísar til nefndarstarfs. Táknmálstalandi fólk stendur frammi fyrir þeim vanda að fá ekki endurgjaldslausa túlkun í daglegu lífi og í því felst að þau sem reiða sig á táknmál geta ekki sinnt daglegum skyldum sem íbúar í fjöleignarhúsi, ekki sem starfsmenn og ekki sem foreldrar.

Í nýjum lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er mælt fyrir um að íslenskt táknmál sé jafn rétthátt íslensku. Samkvæmt sömu lögum er óheimilt að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstaklega sagt að styrkja þurfi stöðu íslenska táknmálsins. Hvaða þýðingu hafa yfirlýsingar um að það þurfi að gera í þessu sambandi og hvernig samrýmist ákvörðun ráðherrans, að mæta ekki þörf fyrir fjárveitingu vegna endurgjaldslausrar túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa í daglegu lífi, bæði lögum um táknmál og stefnu ríkisstjórnarinnar?

Því er spurt: Ætlar mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða þessa ákvörðun sína og tryggja fjárveitingu til að mæta umræddri þörf?