142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa.

[15:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hafa í huga þegar rætt er um túlkaþjónustu að sá sjóður sem hér er um að ræða er langt í frá einu fjármunirnir sem varið er til þessa verkefnis. Ég vek til dæmis athygli á því að ætlað er að á þessu ári muni menntamálaráðuneytið greiða á bilinu 30–40 milljónir í túlkaþjónustu vegna framhaldsskólans. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fær úr ríkissjóði ríflega 90 milljónir á ári. Þar fyrir utan hefur stofnunin um það bil 80 milljónir í sértekjur vegna túlkaþjónustu, þ.e. fjármunir sem stofnunin getur rukkað inn, m.a. og einkum og sér í lagi frá opinberum aðilum sem greiða fyrir þá þjónustu til að tryggja táknmálsþjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Mér hefur fundist nokkuð bera á því í þessari umræðu að það sé talað eins og öll þjónustan felist í þessum eina sjóði.

Nú er sú staða komin upp að þeir fjármunir sem ætlað var til þessa sjóðs eru alveg upp urnir. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður og fyrirspyrjandi hefur bent á. Vandinn er einkum og sér í lagi vegna þess að tekin var ákvörðun um það fyrir nokkru og staðfest í maímánuði að hækka gjaldskrána fyrir túlkaþjónustuna um 45%. Sú ákvörðun var kynnt í ríkisstjórn Íslands í febrúarmánuði á þessu ári þar sem hv. fyrirspyrjandi átti sæti. Engir aukafjármunir voru þá látnir renna til þessa máls. Með því að taka ákvörðun um að hækka gjaldskrána um 45% án þess að láta fjármuni fylgja var með öðrum orðum tekin ákvörðun um það með beinum hætti að draga úr þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta. Maður getur ekki með annarri hendinni ákveðið að hækka gjaldskrána um 45% og síðan einhvern veginn vonað að það komi fjármunir (Forseti hringir.) eða það sé hægt að halda uppi þjónustunni án þess að fjármunirnir komi. (Forseti hringir.) Um leið og tekin var ákvörðun um hækkun gjaldskrár hefði átt að taka ákvörðun um aukna fjármuni til þessarar mikilvægu þjónustu.