142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

vegalagning um Gálgahraun.

[15:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda spurninguna. Staðan í þessu máli er einfaldlega sú, eins og þingheimur þekkir mætavel, að umfjöllun um þetta viðfangsefni og ákvörðun um þessa framkvæmd er löngu tekin og málið er löngu búið að ganga allan sinn rétta, eðlilega og lögbundna feril. Það er langt síðan þannig var um hnútana búið og er það hluti af samgönguáætlun sem var staðfest á Alþingi.

Hins vegar var það þannig að þegar ný ríkisstjórn tók við og eitt af þeim verkefnum sem lágu á mínu borði þá var bréf sem þáverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hafði sent til hlutaðeigandi þar sem hann óskaði eftir að reynt yrði, eina ferðina enn, að setjast yfir verkefnið og athuga hvort einhver flötur væri á sátt. Ég hitti þess vegna fulltrúa Vegagerðar, fulltrúa Garðabæjar og fulltrúa Hraunavina sem hvað helst hafa beitt sér í þessu máli og í ljós kom eftir þá yfirferð að flötur til sátta var ekki til staðar. Hugmyndir Hraunavina um aðgerðir til breytinga voru einfaldlega þannig að þær hefðu kallað á algerlega nýtt skipulag og lutu að því að vegstæðið skyldi vera á allt öðrum stað en það er núna. Það var ekki vilji af hálfu fulltrúa Garðabæjar til að breyta því vegna þess að þeir hafa, eins og þingheimur þekkir, lengi beðið eftir þessum umbótum, telja þetta mikið öryggismál í sveitarfélagi sínu. Slys þarna hafa verið tíð og alvarleg þannig að það er mikið hagsmunamál fyrir þetta sveitarfélag að þar verði breyting á. Þannig er staðan í verkefninu.

Það er ekki í boði, hv. málshefjandi og þingmaður, að innanríkisráðherra blandi sér í málið á þessu stigi. Það er komið á lokapunkt. Það er komið til framkvæmda eins og þingmaðurinn benti á þannig að það heldur áfram eins og við má búast og var samþykkt hér fyrir margt löngu.