142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

vegalagning um Gálgahraun.

[15:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki hlutverk innanríkisráðherra, það er þrískipting ríkisvalds á Íslandi. Málshefjandi kom sjálf inn á það að héraðsdómur í Reykjavík hefði tekið ákveðna ákvörðun og þá er það ekki innanríkisráðherra að ganga í málið og breyta þeirri ákvörðun. Þar var ekki talið að um nýtt mál væri að ræða og þar var heldur ekki talin ástæða til að stöðva framkvæmdir.

Svo er ég ekki viss um að hv. fyrirspyrjandi hafi hlustað á orð mín. Ég sagði hátt og skýrt að það hefði ekki verið nein forsenda til sátta í málinu. Það kom ekki fram nein lausn sem var talin lausn til sátta. Hraunavinir komu með tillögu um breytingu sem laut að því að gera verkefnið algjörlega gjörólíkt því sem það var og setja vegstæðið í sama vegstæði og það er núna en ekki nýju vegtenginguna. Það er ekki það sem Garðabær stefndi að. Það hefði verið eina leiðin ef skipulagsyfirvöld þar og bæjaryfirvöld hefðu talið flöt á því að fara aðra leið.

Hvaða dagur sem er í dag — til hamingju með daginn! — þá þarf líka að gæta að því, og þar hafa bæði fulltrúar Vegagerðarinnar og Garðabæjar talað hátt og skýrt, að þetta er talið mikið öryggisatriði (Forseti hringir.) og varðar mannslíf. Það skiptir líka miklu máli. (Gripið fram í.)