142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

fjárhagsstaða háskólanna.

[15:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Með yðar leyfi vil ég byrja svar mitt á því að óska hv. fyrirspyrjanda til hamingju með að hafa undirritað eiðstafinn og býð hana velkomna hingað. En hvað varðar fyrirspurnina um stöðu háskólanna er það alveg hárrétt sem fyrirspyrjandi vekur hér máls á, að staða þeirra er einfaldlega ekki nógu góð. Ég held að það skipti engu máli hvar í flokki menn standa hvað það mál varðar, við vitum að þegar við berum saman fjárhagsstöðu háskólanna og háskólastigsins hér við það sem gerist til dæmis í OECD-löndunum, alveg sérstaklega annars staðar á Norðurlöndunum, þá sjáum við að háskólastigið hér stendur ekki nógu vel og það stendur veikt í fjárhagslegum skilningi.

Þó skal sagt að það er reyndar alveg ótrúlegt hve háskólunum hefur tekist að vinna góða vinnu á Íslandi og hvað þeir hafa náð miklum árangri til dæmis í rannsóknarstarfi á alþjóðlegum vettvangi þrátt fyrir að þeim sé svona þröngur stakkur skorinn. Við erum í sömu stöðu varðandi þessi mál eins og til dæmis heilbrigðiskerfið; allt markast það nú af stöðunni í ríkisfjármálum og staðan í ríkisfjármálum er auðvitað erfiðari en menn ætluðu og við því er verið að bregðast. Þess vegna er almenn niðurskurðarkrafa á alla málaflokka, hvort heldur sem um er að ræða heilbrigðismál, menntamál, félagsmál eða aðra málaflokka sem ríkið ber meginábyrgð á.

En hvað varðar framtíðina er rétt að geta þess að ég hef til dæmis fundað með rektor Háskóla Íslands, af því að sérstaklega var spurt um opinberu háskólana, um hvernig við getum hagað stefnumótun hér til næstu ára og með hvaða hætti slík stefnumótunarvinna eigi að eiga sér stað til þess að samræma alla krafta og leggja grunn að framfarasókn fyrir opinberu háskólana. Ég tel reyndar að það eigi að gilda um alla háskóla. Ég held að það sé réttast að tala um háskólakerfið í heild sinni en úr því að sérstaklega var spurt um opinberu háskólana þá svara ég þessu til.