142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nú er komið að 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, með síðari breytingum, ásamt breytingartillögu og nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem lagt var fram við 2. umr. um málið. Allsherjar- og menntamálanefnd hittist á einum fundi milli 2. og 3. umr. og á þeim fundi reyndist ekki grundvöllur fyrir frekari vinnu með málið. Ég þakka hv. þingmönnum sem til máls tóku við 2. umr. en langar að fara yfir nokkur atriði varðandi frumvarpið sem ég tel mikilvægt að haldið sé til haga.

Úrbætur varðandi skuldir heimila og fyrirtækja hafa verið eitt meginviðfangsefni íslenskra stjórnmála frá bankahruninu 2008 og eru nú eitt helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Allir helstu hagsmunaaðilar og ríkisstofnanir, sem hafa tjáð sig um skuldavandann, benda á að áreiðanlegar, ítarlegar og reglulega uppfærðar upplýsingar um stöðu mála skortir. Í gegnum tíðina hefur það verið vandamál að í hvert sinn sem stjórnvöld eða þingmenn óska eftir upplýsingum um þetta efni hefur tekið langan tíma að safna þeim saman frá lánastofnunum og engin samræmd aðferðafræði við úrvinnslu gagna verið við lýði.

Þá að nauðsyninni. Jafnvel þótt lagaheimild sé skýr og almannahagsmunir ríkir þá er mikilvægasta skilyrðið sem þarf að uppfylla það hvort nauðsyn beri til að grípa inn í réttindi með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Undir þessa spurningu falla atriði eins og það hvort meðalhófs sé gætt, hvort úrræðið sé til þess fallið að mæta þörfum stjórnvalda og hagsmunamats. Til þess að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir um opinber málefni þurfa vandaðar upplýsingar um stöðu mála og áhrif ákvarðana að liggja fyrir. Frumvarp það sem hér um ræðir lýtur að því að skapa forsendur fyrir skynsamlegri ákvarðanatöku varðandi úrbætur í skuldamálum heimila og fyrirtækja. Jafnframt verða skapaðar nauðsynlegar forsendur til að fylgjast með árangri aðgerða og meta árangurinn. Þær ákvarðanir sem hér um ræðir geta haft verulega þýðingu fyrir heimili og fyrirtæki og efnahagslíf í landinu almennt og því veltur á miklu að vel takist til.

Það er alveg rétt, sem komið hefur fram við meðferð málsins, að sérfræðinganefnd ríkisstjórnarinnar, um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, á að skila af sér í nóvember næstkomandi. Vegna þess hve það hefur dregist að Hagstofa Íslands gæti hafið það verkefni sem frumvarpið snýst um verða fyrstu tölfræðiskýrslurnar ekki tilbúnar á þessu ári. Nefndin um höfuðstólslækkun mun því þurfa að byggja á öðrum gögnum og eins og fram hefur komið í meðförum þingnefndar telur hún að það sé gerlegt. Hins vegar ber að líta á það að frá nefndinni munu einungis koma tillögur miðað við ákveðnar forsendur sem gefnar eru í þingsályktun Alþingis frá því í sumar. Það er hins vegar mjög brýnt að áður en þeim tillögum verður hrundið í framkvæmd, eða samhliða og áður, gefist tækifæri á að vega þær og meta á grundvelli sem bestra upplýsinga. Það er þá sem tölfræðiskýrslur Hagstofunnar munu reynast nauðsynlegar. Þær munu gera kleift að meta hvernig leiðrétting mun dreifast til lántaka og hverjum hún mun gagnast. Jafnframt ber að ítreka að þegar ákvarðanir hafa verið teknar og tillögum hrundið í framkvæmd af hálfu stjórnvalda þarf að fylgjast með því hvernig gengur að framfylgja ákvörðunum og síðan hvort aðgerðir skili tilætluðum árangri.

Fyrirhugað afnám verðtryggingar og breytingar sem þá munu verða á samsetningu lánasafns heimilanna eru einnig þess eðlis að mjög mikilvægt verður að hafa tæki til að fylgjast vel með því hver áhrifin verða á fjárhag þeirra. Sama á við um fyrirtækin í landinu. Burt séð frá aðgerðum stjórnvalda í þágu skuldsettra heimila, og eftir atvikum fyrirtækja, sýnir reynslan að mjög mikilvægt er að hafa sem bestar upplýsingar um þróun mála í þessum efnum. Tölfræðiskýrslur Hagstofunnar munu því verða mikilvægur hagvísir á meðan lagaheimildin er til staðar.

Svo aðeins að því hvers vegna upplýsingar þær sem Hagstofan hefur nú eru ekki nægjanlegar til að gefa ítarlega mynd af skuldum einstaklinga og því nægja niðurstöður skattframtala því ekki. Greiðslubyrði verður ekki metin af framtalsgögnum því að þar vantar upplýsingar um afborganir annarra lána en tekin eru vegna húsnæðiskaupa en þær upplýsingar eru nauðsynlegar við mat á greiðslustöðu sem og upplýsingar um tegundir eða kjör annarra lána en tekin eru til öflunar á húsnæði. Þar er heldur ekki að finna upplýsingar um greiðsluvanda ef um hann er að ræða og ekki heldur upplýsingar um áhrif aðgerða sem gripið hefur verið til til að laga greiðslu- eða skuldavanda. Þannig vantar á að grunnupplýsingar séu fyrir hendi en þessara upplýsinga þarf að afla til að fá sem réttasta heildarmynd.

Hvers vegna er ekki hægt að ganga skemmra varðandi öflun upplýsinga með því að velja úrtak úr gögnum?

Lög nr. 163/2007 gera ráð fyrir því sem meginreglu að Hagstofan afli ekki meiri gagna en nauðsynleg eru til að sinna tilteknu verkefni, samanber t.d. 1. mgr. 6. gr. Það er áréttað í breytingartillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar við frumvarpið þar sem segir að Hagstofa Íslands skuli tryggja að upplýsingaöflun gangi ekki lengra en þörf krefur til að þjóna markmiðum lagasetningarinnar. Í verkefninu sem til umfjöllunar er er gert ráð fyrir að safna heildartölum um skuldir heimila og fyrirtækja í mjög ítarlegri sundurliðun og með mikilli tíðni gagnabirtinga. Notkun á úrtaksaðferðum hefði ýmsa annmarka í för með sér og mjög óljóst hver úrtaksramminn ætti að vera. Rannsókn sem mundi byggjast á spurningum sem beint væri til heimila með þeirri tíðni sem gert er ráð fyrir fæli í sér allt aðra nálgun og væri verulega umfangsmeiri. Úrtak þyrfti að vera mjög stórt sem hefði í för með sér mikla svarbyrði lántaka. Þá væri mikil hætta á skekkjum vegna þess að reynslan sýnir að jaðarhópar svara síður en þeir sem eru nær meðallagi og ekki er víst að þátttakendur hefðu handbærar allar þær ítarlegu upplýsingar sem þarf að afla. Í því tilviki yrði ekki hægt að mæta kröfum um tímamörk á birtingu niðurstaðna auk verulega meiri kostnaðar.

Verulegir annmarkar eru á því að safna ekki heildarupplýsingum frá bönkum heldur velja úrtak heimila og eingöngu afla upplýsinga um þau. Til dæmis þyrfti að velja úrtak eftir fjölskyldum og senda kennitölu þeirra á banka- og fjármálastofnanir sem fengju þar með vitneskju um alla þá sem í úrtakinu væru, hvort sem þeir væru viðskiptavinir þeirra eða ekki. Ef bönkunum yrði hins vegar falið að velja úrtakið úr hópi viðskiptavina sinna væri ekki hægt að nota heimili sem grunneiningu í úrvinnslu á tölfræðinni sem ekki samrýmist markmiðum verkefnisins. Úrtakið þyrfti líklega að vera að minnsta kosti þriðjungur af heildarfjöldanum til að tölfræðin gæti orðið marktæk, sem sagt þriðjungur landsmanna. Auk þess að dreifing skulda er mjög mikil, samkvæmt framtölum 2012, var meðaltal skulda á einstakling ríflega 10 milljónir króna en miðgildi skulda ríflega 2 milljónir sem er mikil dreifing, sem mundi auka á vanda við að nota úrtaksaðferð. Hér yrði því um mjög breitt verkefni að ræða sem þyrfti að hugsa að mörgu leyti upp á nýtt. Það mundi enn tefja að upplýsingaöflun hæfist og að niðurstöður fengjust og við stæðum í þeim sporum að vita ekki hvort þær niðurstöður yrðu áreiðanlegar.

Þá eru að mestu leyti uppi sömu álitamál og ella varðandi það hvort nauðsyn réttlæti það að heimiluð sé víðtækari úrvinnsla persónuupplýsinga en verið hefur, þ.e. þó að farin yrði úrtaksleið krefst það allra sömu heimilda og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Eins og gildandi lög eru úr garði gerð, og ekki síður vegna fyrrgreinds ákvæðis í breytingartillögum allsherjar- og menntamálanefndar, er Hagstofu skylt að meta hvort ná megi markmiðum lagasetningar með vægari aðferðum en að afla upplýsinga um öll útistandandi lán á því tímabili sem um ræðir. Það mat er hins vegar eftirlátið Hagstofu Íslands en eins og áður segir þá hefur hún miklar efasemdir um að úrtaksaðferðin gangi upp.

Á endanum þarf svo að vega og meta þá hagsmuni sem eru í húfi. Annars vegar er um að ræða mjög mikilvæga almannahagsmuni varðandi það að vel takist til að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja og að ráðstöfun fjármuna nýtist sem best. Jafnframt eru skapaðar forsendur til að fylgjast með þróun mála og gildistíma lagabreytingarinnar til að meta árangur og grípa þá til hugsanlegra viðbótaraðgerða ef þörf krefur. Hins vegar er um að ræða þýðingarmikla hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja af því að trúnaður ríkir um fjárhagsupplýsingar þeirra, nánar tiltekið lántökur hjá fjármálastofnunum og stöðu lána. Til viðbótar koma svo hagsmunir lánastofnana af því að viðskiptavinir geti treyst því að bankaleynd sé í heiðri höfð.

Í breytingartillögu við frumvarpið er tryggilega gengið frá því að trúnaðurinn verði ekki rofinn. Almennur lagarammi Hagstofu Íslands geymir fjölmargar reglur um að meðferð persónuupplýsinga skuli vera sem tryggust. Að auki er í frumvarpinu, með þeim breytingum sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til, hert á slíkum kröfum. Þannig er mælt fyrir um að Hagstofa Íslands móti sér öryggisstefnu, geri áhættumat og aðrar öryggisráðstafanir. Að gögnum verði eytt að tilteknum tíma liðnum auk þess sem brot á trúnaðar- og þagnarskyldu varðar sömu refsingu og gildir um starfsmenn fjármálafyrirtækja.

Á heildina litið er það mat meiri hluta nefndarinnar að almannahagsmunir sem að baki búa réttlæti þá auknu vinnslu persónuupplýsinga sem frumvarpið gerir ráð fyrir í tiltekinn afmarkaðan tíma og undir afarströngum skilyrðum.