142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir spurningarnar, ég vona að ég nái þeim öllum.

Samkvæmt erindisbréfum starfshópanna skilar annar þeirra í nóvember og hinn í desember eftir því sem ég best veit.

Já, ég er sannfærð um að þarna séum við komin með bestu aðferðina til að ná þessum markmiðum og að almannahagsmunir vegi þyngra en persónuverndin í þessu tilfelli. (Gripið fram í.) Við erum að vega almannahagsmuni á móti persónuverndarsjónarmiðum, það er alveg skýrt.

Ég er alveg sannfærð um það og það er áréttað í breytingarákvæðinu, það er eina greinin sem heldur sér í frumvarpinu:

„Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum.“

Það er hins vegar rétt sem kom fram hjá Helga Hrafni við fyrri umræðuna, við fengum fyrir nefndina ýmsa aðila sem töldu að þarna væri verið að gera eitthvað annað en það sem stóð í frumvarpinu. Það kom fram í umræðu þeirra að þeir töldu að þessar upplýsingar yrði hægt að nota í eitthvað annað. Þess vegna vildum við taka af öll tvímæli og árétta í nefndaráliti að þessar upplýsingar verða eingöngu notaðar af Hagstofunni til vinnslu tölfræðiupplýsinga.

Nú er tími minn útrunninn, (Forseti hringir.) ég verð bara að svara þá í annarri umferð því sem eftir stendur.