142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Nú geri ég mér grein fyrir að það eru mismunandi hópar, svo sem mismunandi tekjuhópar, sumt fólk er í skóla, annað fólk er í vinnu o.s.frv., mismunandi hópar eru í samfélaginu vissulega. En það sem ég skil ekki er hvers vegna við þurfum upplýsingar um fólk sem á ekki við neinn skuldavanda að stríða, eins og til dæmis um mig persónulega. Ég er með verðtryggt lán, ég á íbúð, ég er ekki í neinum vandræðum, sá mér ekki þörf á að kjósa Framsókn með fullri virðingu, og skil ekki hvers vegna þarf mínar upplýsingar til að laga skuldavanda annarra sem þó eiga um sárt að binda.

Þá langar mig að spyrja: Það er ekkert sem bannar Hagstofunni að fara vægari leiðir. Telur hv. þingmaður að Hagstofan muni fara vægari leiðir en að safna öllum upplýsingum sem Hagstofan getur?