142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni.

Við allar aðgerðir sem farið er í eða þegar áhrif aðgerða eru metin er mikilvægt að horfa ekki bara á hvaða áhrif það hefur á þann tiltekna hóp sem á að mæta með aðgerðinni heldur á heildarmyndina. Hvernig kemur hópurinn út miðað við aðra hópa og hefur þetta kannski einhver áhrif á aðra hópa sem ekki eru séðir fyrir?

Hvort ég telji að Hagstofan muni fara vægari leiðir, ég tel að Hagstofan muni skoða ítarlega hvort hægt er að fara vægari leiðir. Mér er kunnugt um að hún hafi verið að gera það og muni gera það áfram. Ég treysti Hagstofunni einfaldlega fyrir því verkefni að meta hvernig markmiðum verkefnisins er náð eftir þeim vægustu mögulegu leiðum og þá á það við vægustu leiðir fyrir einstaklingana, fyrir þá sem svara, senda inn gögnin o.s.frv.