142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir ræðuna og spyrja hana hvort nefndin hafi fjallað um þá tillögu sem ég kom með í 2. umr. um að staða leigjenda yrði líka skoðuð. Nú eru 27% allra heimila leiguíbúðir, segir Hagstofan, og staða leigutaka er að mínu mati afskaplega döpur. Það eru ekki bara skuldarar sem eru í vandræðum heldur líka leigutakar. Það er þannig að rétt rúmlega helmingur eigenda íbúða eru skuldarar, sennilega um 52% án þess að ég viti það nákvæmlega, og ég tel ekki síður mikilvægt að skoða stöðu leigjenda.

Mér fannst vera samhljómur og góður andi hjá öllum þingmönnum um málið í byrjun umræðunnar en nú virðist sem stjórnarandstaðan, eða þeir sem eru ekki aðilar að ríkisstjórninni, komi jafnvel með frávísun og vilja ræða málið seinna, en benda jafnframt á að tímaskortur sé í málinu því að þær nefndir sem eigi að skila eigi að að gera það áður en niðurstaða liggur fyrir í þessu máli.

Hvernig var umræðan í nefndinni um það atriði, um að vilja bæði flýta og seinka málinu, annars vegar seinka því fram í október og hins vegar að vandræðast með að niðurstöðurnar lægju ekki tímanlega fyrir?