142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér í 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, með síðari breytingum. Sérstaklega er verið að skoða tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja. Þetta mál hefur fengið ítarlega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd en því miður náðist ekki þar samkomulag sem hefði verið mjög mikilvægt í þessu máli. Það hefur verið ósk minni hlutans að málið yrði skoðað betur og ég ætla að fara aðeins yfir meginrökstuðninginn hér.

Það hefur þróast þannig að minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur lagt fram í þinginu tillögu að rökstuddri dagskrá þar sem þess er óskað að málinu verði vísað frá. Sú tillaga verður væntanlega tekin til afgreiðslu á morgun samhliða afgreiðslu málsins. Í rökstuðningi sem auðvitað fylgir rökstuddri dagskrártillögu eru nefnd nokkur atriði og þau eru endurtekning að hluta til á því sem var í minnihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar.

Í fyrsta lagi segir að með frumvarpinu sé gengið á stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífs, samanber 71. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og umsagnir þeirra sérfræðinga sem hafa komið að málinu. Þeir hafa raunar staðfest að þetta fer inn á friðhelgi einkalífsins. Þess vegna teljum við mikilvægt að þessu máli verði ekki lokið þannig að hætta verði á dómsmálum eða eftirmálum sem geta þá eyðilagt upplýsingasöfnunina plús það að við getum undir engum kringumstæðum samþykkt lagatillögur sem ganga á þessi mikilvægu réttindi.

Það sem er þá líka gagnrýnt í þessum rökstuðning er að í frumvarpinu skortir útskýringar á því hvers vegna þörf er talin á svo viðurhlutamiklum afskiptum af þessari friðhelgi með svo víðtækri upplýsingaöflun.

Í öðru lagi er nefnt í rökstuðningnum að frumvarpið er ekki forsenda fyrir úrlausnum skuldavanda heimila og fyrirtækja eins og ætla mætti. Það hefur ágætlega komið fram í umræðunni fyrr í dag að tillagna um skuldaúrlausnir er að vænta í nóvember eða desember. Það kom hins vegar fram í nefndarstarfinu að tölfræðin sem á að byggja á þessari heimild eigi ekki að liggja fyrir fyrr en í mars á næsta ári í fyrsta lagi. Þar með er ekki eins og við séum í tímapressu hvað varðar úrlausnir skuldavandans því að ekkert okkar í minni hlutanum vill hindra framgang þess máls, heldur hefði það þolað að fá vandaðri meðferð og við hefðum viljað eyða þeim atriðum út úr frumvarpinu sem valda áhyggjum varðandi stjórnarskrárvarin réttindi friðhelgi einkalífsins.

Í þriðja lagi eru markmið frumvarpsins og tilgangur alls ekki nægjanlega skýr og miklar efasemdir um hvort þessi óljósu markmið teljist nægjanlega veigamikil rök til að ganga á friðhelgi einkalífsins með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, sérstaklega í ljósi þess að til að takmarka megi mannréttindi þurfi rök að vera veigamikil og tilgangur brýnn. Þar er heimild í lögum, mannréttindasáttmálum og stjórnarskránni til að víkja frá friðhelgi einkalífsins ef um er að ræða ríka almannahagsmuni.

Ef við værum að byggja alla leiðréttinguna eingöngu á þessum forsendum og þarna væru þá tugir þúsunda heimila sem mundu njóta góðs af gæti maður séð þetta fyrir sér en það hefur komið mjög skýrt fram að þessi tenging er ekki fyrir hendi heldur er eingöngu verið að tala um að vinna tölfræði eftir á til að fylgjast með áhrifum breytinganna.

Í fjórða lagi má segja að ekki hafi verið sýnt sannfærandi fram á þá almennu reglu að gæta meðalhófs. Eru færð fyrir því þau rök að jafnvel úrtaksvinna eða könnun gæti náð sömu eða sambærilegum niðurstöðum og þar með væri farið í viðaminni úrvinnslu á tölfræði og öruggari en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Í fimmta lagi er tekið fram að þrátt fyrir þá vinnu sem hefur farið fram á vettvangi nefndarinnar eru enn mjög margir vankantar á frumvarpinu. Það hefur ekki verið gengið úr skugga um hvort og hvernig frumvarpið samræmdist ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum og Evrópulöggjöf um vernd einstaklinga við vélræna vinnslu persónuupplýsinga og við vinnslu og frjálsa miðlun persónuupplýsinga. Þó skal það tekið fram til að gæta allrar sanngirni að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur unnið viðamiklar breytingar á upphaflega frumvarpinu og komið til móts við margar af þeim athugasemdum sem þar komu fram. Menn hafa reynt að þokast nær hver öðrum til að finna góða lausn. Einmitt þess vegna er það svolítið sárt að okkur skuli ekki hafa gefist aðeins meiri tími til að ljúka málinu þannig að það væri gert í fullri sátt eins og tillaga minni hlutans var um.

Í sjötta lagi, þegar litið er til þess hvaða gæðakröfur löggjöf þarf að uppfylla er ljóst að frumvarpið hefur ekki fengið nægjanlega umfjöllun og krefst ítarlegri yfirferðar. Ég hef fært að því rök áður, og það kemur fram í greinargerðinni hér, að ekki sé ástæða til að hraða málinu í gegnum sumarþingið, nóg sé að taka það upp strax aftur í október þar sem það er ekki forsenda fyrir skuldaleiðréttingunni.

Í sjöunda lagi, verði frumvarpið að lögum verða tölfræðiupplýsingar — og það er kannski einn af þessum áhættuþáttum — sem víða liggja í dag færðar í einn gagnagrunn eða á einn stað. Og þó að það sé til tiltekins tíma skapar það eitt og sér þá áhættu að hægt sé að brjótast inn í þessa gagnagrunna og afla sér þar mjög víðtækra upplýsinga um einstaklinga.

Í þessari tillögu til rökstuddrar dagskrár sem minni hlutinn flytur er þess vegna tillaga um að málinu verði vísað frá með hliðsjón af framanrituðu og næsta mál á dagskrá tekið fyrir. Sú tillaga kemur til afgreiðslu á morgun.

Þetta mál hefur fengið ágæta umfjöllun í þinginu. Eins og ég segi hefur komið fram í umræðunni að málið verður ekki endanlega afgreitt fyrir en á morgun. Ég held að ég þurfi í sjálfu sér ekki að hafa öllu fleiri orð. Þetta er niðurstaða minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem skipaður er af hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, þeim sem hér stendur og hv. þm. Páli Val Björnssyni. Þau flytja þessa tillögu að rökstuddri dagskrá saman og ég er hér talsmaður fyrir þá vinnu og treysti á að þingið gæti sín nú í lagasetningu þannig að ekki sé verið að leika sér hér með friðhelgi einkalífsins eða persónuverndarákvæði, að það gefi sér örlítið lengri tíma.

Öll erum við á því að við þurfum að eiga ákveðnar upplýsingar um skuldastöðu heimila og þróun hennar en í þeirri vinnu hefur sú gagnrýni sem hér hefur komið fram orðið til þess að menn hafa valið enn og aftur. Áður hafði Seðlabankinn heimild til að afla upplýsinga. Nú hefur Hagstofan fengið heimild til að afla upplýsinga en á að eyða þeim öllum eftir þrjú til fjögur ár. Það sem okkur hefði frekar vantað er vandaðri vinna við að skilgreina hvaða gagnagrunnar eiga að vera til og hvernig eigi að fara með þá sem hluta af upplýsingakerfi samfélagsins til þess að við getum vandað ákvarðanatöku okkar. Þessi tillaga er allt of víðtæk til þess að geta verið sá gagnagrunnur sem okkur vantar þar.