142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég spyr hann að því hvað gerðist í nefndinni. Mér fannst vera sæmilegur samhljómur hjá öllum. Það eru eiginlega allir sammála um að þetta séu nauðsynlegar upplýsingar og menn eru líka sammála um að þetta þurfi að koma fram fljótt. Einhver nefnd er að störfum sem á að skila í nóvember. Þess vegna skil ég ekki að menn ætli sér að fresta málinu til að fá það fyrr, ég næ því ekki alveg.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þeir hafi unnið alla helgina í nefndinni að því að finna lausn á málinu eða hvernig þetta hafi allt saman verið, hvort þeir hafi virkilega ekki lagt sig fram alveg fram á síðustu mínútu fyrir þennan þingfund að klára málið í sátt og samlyndi þannig að þeir nái þessu tvíhliða markmiði að meiða persónuverndina sem allra minnst og hins vegar að fá upplýsingar um stöðu skuldugra heimila.