142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt fyrir mig að svara fyrir verklagið í nefndinni. Ég sagði að það væri samhljómur um ákveðin atriði, þ.e. um þörfina á því að hér sé einhver ákveðinn upplýsingagrunnur. Þegar við áttum okkur á því að hann er ekki forsenda fyrir ákvarðanatöku og á ekki að notast sem slíkur, þá segjum við: Vöndum okkur, tökum okkur lengri tíma vegna þess að við fengum mjög harða gagnrýni frá Persónuvernd og frá Lögfræðingafélaginu og fleirum og fleirum sem segja að þetta sé á mörkum þess að raska friðhelgi einkalífsins eða stangist á við stjórnarskrárbundin ákvæði um friðhelgi einkalífsins.

Þess vegna sögðum við: Það var ekki samstaða um að þetta þyrfti að ganga svona hratt fyrir sig. Vandræðagangurinn kom kannski upp vegna þess að þetta er einn af tíu punktum sem voru í þingsályktunartillögunni um aðgerðir í skuldamálum. Ég verða að segja að ég hélt persónulega að þetta væri forsenda. Svo er ekki. Þess vegna sögðum við: Gefum okkur lengri tíma vegna þess að við erum þarna á gráu svæði ef ekki kolsvörtu varðandi það að fara þessa leið.

Það var ákveðinn vilji fyrir að vinna þetta áfram en það er ekki vilji fyrir því núna. Við vísuðum þessu til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. Ekki var vilji meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar að skoða málið frekar, heldur á að keyra það frekar í gegn, enda var þetta eitt af fáum málum sem voru hér á síðari hluta sumarþingsins. Þingstyrkur liggur svo sem fyrir þannig að kannski hefur það ráðið úrslitum og ekki talin ástæða til að ræða mikið meira við minni hlutann um frekari aðferðir til þess að ná sátt um málið, sem ég teldi annars vera mjög mikilvægt í þessu máli þannig að við deildum ekki um stjórnarskrárbundin réttindi fólks.