142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, við hefðum ekkert vílað það fyrir okkur að vinna miklu meira í málinu. Helst hefðum við þurft að koma fyrr að því þegar fyrirsjáanlegt var að málið næðist ekki á fyrri hluta sumarþingsins. Tillagan, sem var viðamikil breyting, kom ekki fram fyrr en við hittumst að nýju eftir sumarfrí 10. september. Þá kom í ljós að þær breytingar voru ekki nægjanlega miklar til þess að róa Persónuvernd og þá sem hafa verið að skoða frumvarpið út frá mannréttindasjónarmiðum. Við fórum þá í að reyna að breyta því og ég hef tekið það fram að nefndin hefur tekið vel í margar af þeim tillögum, en á ákveðnum punkti sagði hún: Við förum ekki lengra, við verðum að klára þetta á þessum tímapunkti, við getum ekki unnið meira í málinu. Þannig gekk það fyrir sig.

Ég álasa ekki neinum fyrir það, það skiptir einhvern veginn miklu máli fyrir sjálfstraustið, fyrir það að þetta sé hluti af því að leysa skuldavandanum. En staðreyndin er sú að það er það ekki samkvæmt þeim upplýsingum sem við fáum í nefndinni. Þess vegna vildum við fá lengri tíma, þess vegna brustu líka forsendurnar fyrir því að hér væri um ríka almannahagsmuni að ræða af því að við notum ekki þessar upplýsingar í fyrstu afgreiðslu varðandi skuldavandann. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga, það kom mjög skýrt fram í nefndinni. En búið er að laga fullt af hlutum í frumvarpinu, m.a. átti forsætisráðuneytið samkvæmt upphaflegu tillögunum að geta leitað eftir upplýsingum hjá Hagstofu um gögn. Hagstofan ítrekaði að hún væri tölfræðistofnun og gæfi eingöngu tölfræðilegar skýrslur og að engin leið væri að rekja einstaklingsmál þar inni.

En við spyrjum á sama tíma: Ef það er bara skuldavandi sem á að leysa og það liggur fyrir hvernig á að leysa hann, af hverju er þá verið að spyrja um ýmsa þá þætti sem hér eru eins og að menn eigi að gefa upplýsingar um hvaða úrræða þeir hafi notið eftir hrunið ef ekkert á að vinna með það o.s.frv.?

Við höfum ekki fengið svör við fullt af spurningum. Gefum okkur örlítið lengri tíma, náum sátt um málið, klárum það. (Forseti hringir.) Það tefur ekki skuldaúrvinnsluna samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið.