142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Það er heppilegt að byrja á þessum nótum, held ég, vegna þess að þetta er áhugaverð spurning sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bar hér fram, þ.e. hvort hin svokallaða stjórnarandstaða vildi ekki bæði flýta málinu og hægja á því. Bara til að halda því til haga þá hef ég ekki talað fyrir því að flýta þessu máli.

Það er hins vegar tvennt sem verið er að athuga, annars vegar aðgerðirnar sjálfar og hins vegar hvað verði úr þeim, hverjar niðurstöðurnar verði. Það getur ekki talist rosalega nauðsynlegur undanfari þess að hefja aðgerðirnar að athuga hvernig þær heppnast. Hvort það gerist í mars á næsta ári eða júní á næsta ári getur ekki oltið á spurningunni um að brjóta stjórnarskrá, að brjóta gegn friðhelgi einkalífsins. Það er einfaldlega ekki það mikilvægt. Jafnvel þó að við gefum okkur að hið meinta neyðarástand sé í gangi og að grípa þurfi til aðgerða strax þýðir það ekki að upplýsingarnar sem ætlunin er að safna samkvæmt frumvarpinu séu nauðsynlegar vegna ríkra almannahagsmuna. Kröfum hvað það varðar að brjóta ekki gegn friðhelgi einkalífsins hefur einfaldlega ekki verið fullnægt.

Þegar kemur að þeirri hugmynd sem ég hef viðrað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þ.e. að afla upplýsts samþykkis — mér sýnist sumir hv. þingmenn vera að rugla því saman við svokallað úrtak. Úrtak er væntanlega handahófskennt og reynt að dreifa því eftir hópum þannig að um sé að ræða svipað hlutfall námsmanna, leigjenda og eigenda og guð má vita hvað. Ég er að tala um að einblína á þá sem eiga við skuldavanda að stríða burt séð frá því í hvaða stöðu þeir eru, ég sé ekki að það skipti neinu máli til að ráðast að þessum mikilvæga vanda, nefnilega greiðslu- og skuldavanda heimilanna sem krefjast aðgerða sem þessara. Þess vegna sé ég enn og aftur ekki að umrætt frumvarp standist þær kröfur sem eru gerðar hvað það varðar að brjóta ekki gegn friðhelgi einkalífsins.

Hvað það varðar hvort þessi hugmynd hafi verið rædd, það var spurning sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bar hér fram, hvort hugmyndin sem ég hef ítrekað borið á torg hafi verið rædd. Svarið er: Nei, hún var ekki rædd. Það var aldrei tími til að ræða hana. Það er kannski vegna þess að sumir hv. þingmenn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafa ekki endilega skilið hvað hún snýst um en til þess ræðir fólk hlutina, til að öðlast skilning á málunum. Við fengum aldrei þann tíma og þess vegna var hugmyndin ekki rædd.

Hvað varðar helgarstarfið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði um — sá sem hér stendur hefði verið ólmur í að vinna alla helgina með allsherjar- og menntamálanefnd í því að búa til nýtt frumvarp sem stæðist kröfur um takmarkanir á friðhelgi einkalífsins, en sú nefnd kom saman strax eftir þingfund á fimmtudag. Fundurinn stóð í 10–15 mínútur, og andrúmsloftið var gott eins og er eiginlega alltaf í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, en engin vinna var til boða, okkur stóð ekki til boða að gera neitt með hv. allsherjar- og menntamálanefnd yfir helgina. Það lýsir því bara hversu mikill flýtirinn er. Það lýsir því líka hvers vegna frumvarpið er svona gallað, svo vel sem það er meint þá er það einfaldlega of gallað.

Ég verð líka að velta hlutunum fyrir mér varðandi spurninguna um það hvaða upplýsinga sé þörf. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir nefnir hér, sem svar við spurningu minni fyrr í dag — spurningin var sú hvort við þyrftum virkilega að fá upplýsingar um fólk sem á ekki í neinum vanda til að fara í úrbætur fyrir fólk sem á í vanda. Þá er talað um að það skekki niðurstöðurnar. En það skekkir bara niðurstöðurnar ef við lítum á þetta sem almennar hagskýrslur. Ef við erum að tala um almennar hagskýrslur erum við ekki að tala um hið meinta neyðarástand. Ef við erum að tala um hið meinta neyðarástand erum við að tala um fólkið sem á í vandræðum, ekki fólkið sem á ekki í vandræðum eins og þann sem hér stendur, guði sé lof.

Þetta er líka til marks um það hversu mikill þvælingur er á markmiðinu með frumvarpinu. Það er einhvern veginn alltaf hvort tveggja — tilgangurinn sama hversu vel hann er skýrður, allar aðferðirnar miðast einhvern veginn að því hvoru tveggja að búa til almennilegar hagskýrslur til almennra nota fyrir yfirvöld og að ráðast gegn hinu meinta neyðarástandi. Það getur ekki verið hvort tveggja. Ef það er hvort tveggja heitir það „óljós tilgangur“.

Það hafa komið fram hugmyndir, fleiri en ein, um hvernig hægt sé að gera þetta vægara. Það hefur ekki verið rætt. Ég spyr hv. þingmenn hvort þeir geri sér grein fyrir því hvað það heiti að leita vægari aðgerða. Það heitir meðalhóf. Þess vegna er meðalhóf, til þess er það. Þetta stenst ekki meðalhóf. Tilgangurinn er enn þá óljós, sem skýrist best af orðræðu hv. þingmanna.

Mig langar að víkja að orðum hæstv. forsætisráðherra, sem talaði hér áðan og nefndi að síðasta ríkisstjórn hafi ætlað að gera þetta og ekki þótt það neitt tiltökumál. Yfirvöldum finnst almennt ekkert tiltökumál að afla sér frekari heimilda, það liggur í hlutarins eðli, fyrir utan það að ég veit ekki til þess að fyrri ríkisstjórn hafi búið til frumvarp sem hefur gengið svona langt. Um þetta frumvarp eins og það kom fram í sumar er eiginlega ekki hægt að tala um langt eða stutt í því samhengi, það er bara algerlega. Því hefur verið breytt mikið síðan þá og mikið til hins betra af lagatæknilegum ástæðum, það hefur verið gert tímabundið o.s.frv. og það er gott. En við erum samt sem áður að tala um frumvarp sem gengur á friðhelgi einkalífsins og það er óumdeilt, það stenst ekki meðalhóf. Ástæðurnar fyrir því eru ekki nógu ríkar, það er bara svo einfalt þegar allt kemur til alls.

Ég hef svo sem ekki meira um þetta að segja nema eitt — maður getur kannski endurtekið sig aftur og vonað að einhver heyri í þetta skiptið en það er ekki mjög líklegt. En varðandi það að Hagstofan gæti athugað vægari leiðir sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom að hér áðan — jú, jú, Hagstofan getur það. En hv. þingmaður veit, sem og öll hv. allsherjar- og menntamálanefnd, að það er auðveldara að safna einfaldlega öllum gögnum og finna síðan út úr því hvað þarf. Ég þekki það sem forritari, þannig er auðveldast að vinna þetta, frá verkfræðilegu sjónarmiði er það eina vitið að vinna það þannig. Sú hugmynd að Hagstofan muni að eigin frumkvæði takmarka eigin heimildir til upplýsingasöfnunar finnst mér, með fullri virðingu, einfaldlega ekki trúverðug. Ég fullyrði að það stenst ekki, Hagstofan mun ekki gera það. Hún má endilega rengja mig hvað það varðar, það væri mér mikið gleðiefni ef henni tækist að sannfæra mig um annað.

Svo er líka önnur spurning sem vaknar stundum hjá mér. Mér sýnist tilgangur frumvarpsins vera að athuga hvaða aðgerðir eigi að fara út í eftir að búið sé að fara í fyrstu aðgerðirnar — ef ég skil þetta allt saman rétt, sem ég er ekki viss um að ég geri. Er eitthvað óljóst við það að markmið hæstv. ríkisstjórnar sé að lækka höfuðstól lána? Ég hélt að það væri forsendan fyrir því að hlutföll þingsins, hins háa Alþingis, séu eins og þau eru, ég hélt það. Ég velti fyrir mér hvaða aðgerðir það eru sem mundu breytast við að slíkar upplýsingar kæmu fram. Það eykur bara spurningaflóðið sem varðar tilgang þessa frumvarps — og nóg var af þeim fyrir.

Mig langar líka reyndar — það er gleðilegt að hafa svona mikinn tíma — að benda á að freistnivandinn er alltaf til staðar. Nú þegar, í vissulega vel meintri orðræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals, kemur fram nýr tilgangur, eitthvað nýtt sem við getum gert við upplýsingar af þessu tagi. Hvað með stöðu leigjenda, já, hvað með hana? Hvað eigum við að nota nema þessar upplýsingar? Auðvitað. Hvers vegna? Vegna þess að þær eru gagnlegar, þær eru alltaf gagnlegar. Og næst þegar Seðlabanki Íslands kemur og segir til dæmis: Við þurfum auknar fjárheimildir til þess að forða landinu frá öðru hruni. Það er svolítið mikilvægt að forða okkur frá öðru hruni. Af hverju ætlum við að segja nei ef ekki núna?

Næst þegar það verður fíkniefnakrísa á Íslandi — er fíkniefnavandinn ekki ríkir almannahagsmunir? Ætlum við þá að setja lög sem heimila lögreglunni að leita að fíkniefnum hjá hverjum landsmanni? Ef nei þá, af hverju ekki núna? Ég skil ekki hvar línan er lengur. Línan er komin langt niður fyrir gráa svæðið með þessu, vegna þess að það er skýrt að um brot á friðhelgi einkalífsins er að ræða, það eina sem er óskýrt er hvort það sé með réttu. Ef það er með réttu hér, til þess að athuga hvort ákvarðanir stjórnvalda eftir aðgerðir þeirra séu rökréttar eða ekki — spurningar sem hefði kannski mátt svara í kosningabaráttunni, meðan ég man — þá skil ég ekki hvernig í ósköpunum hægt væri að segja nei við Seðlabankann þegar hann segir: Ég get forðað ykkur frá öðru hruni, ég get passað að hér sé allt í lagi. Af hverju ekki þá? Og af hverju ekki einmitt vissulega með leigjendur, af hverju ekki fyrir alla?