142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að árétta nokkra hluti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson situr í allsherjar- og menntamálanefnd og veit fullvel að markmið frumvarpsins er tvíþætt, um það höfum við fjallað í löngu máli á fundum nefndarinnar. Það skýtur því skökku við að koma hér upp og halda því fram að ekki liggi ljóst fyrir og hafi ekki legið ljóst fyrir í vinnu nefndarinnar að hverju væri stefnt.

Það er í fyrsta lagi það að stuðla að því að ákvarðanir um úrræði í þágu skuldugra heimila og lögaðila byggist á traustum grunni og í annan stað að vinna tölfræðiskýrslur sem nýtast til að fylgjast með framgangi og meta áhrif aðgerða stjórnvalda og annarra á hag heimila og lögaðila. Þetta liggur mjög skýrt fyrir og þetta er í þeirri breytingartillögu sem nefndin vann og lagði fram og hefur verið samþykkt hér í þinginu.

Mér þykir athyglisvert að hv. þingmaður, sem var á nefndaráliti minni hluta og stendur hér að tillögunni að rökstuddri dagskrá, lýsir því yfir að hann hafi engan áhuga á að flýta þessu máli. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi lýst því yfir að hún vilji breyta þessu máli og búa til eitthvað nýtt þá kristallast það í þessari umræðu að þetta snýst um að tefja. Það þykir mér liggja algjörlega ljóst fyrir eftir þessa ræðu vegna þess að ekki koma fram neinar breytingartillögur frá hv. þingmönnum til að færa þetta mál nær þeirri hugsun sem minni hlutinn er að reyna að koma hér í orð.

Ég tel að það liggi ljóst fyrir að það er vegna þess að menn þar á bæ eru ekki sammála um hvort fara eigi í þessar aðgerðir eða hvernig það sé hægt. Ef ég hef rangt fyrir mér óska ég eftir að hv. þingmaður leiðrétti mig.