142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, við eigum eftir að fjalla um málin seinna, þar á meðal stöðu leigjenda, ég hlakka svolítið til þess.

Hvað varðar orðin um fyrrverandi ríkisstjórn og áætlun hennar um að stíga þetta skref vil ég nefna að þótt ég hafi ekki kosið Framsókn kaus ég ekki heldur neinn annan flokk en minn eiginn, svo að því sé haldið til haga. Því ætla ég að reyna að forðast það eftir bestu getu að verja verk einnar eða annarrar ríkisstjórnar. Ég skal leyfa þeim að verja sig sjálf ef þau svo kjósa.

Aðalatriðið er þó þegar kemur að þessu frumvarpi að það er ekki í verkahring ríkisstjórnar að takmarka valdsvið Alþingis. Það er í verkahring stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Í henni er ein grein, 71. gr., sem fjallar um friðhelgi einkalífsins og á henni erum við ótvírætt að brjóta hér og rökræðum eingöngu hvort við gerum það með réttu eða ekki.

Það er ekki miklu við það að bæta öðru en því að ef við ætlum að halda stjórnarskrána og ef við ætlum að halda friðhelgi einkalífsins ættum við kannski frekar að líta til þess hvernig við getum bætt stjórnarskrána heldur en að ræða það hvernig við getum gengið aðeins skemur en að taka kostinn sem er aðeins verri.