142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hann í fyrsta lagi um hvað gerðist í nefndinni, það braut á einhverju, fundurinn var stuttur að mér er sagt. Vildi stjórnarandstaðan fresta málinu fram að næsta þingi, tefja sem sagt málið þannig að niðurstöðurnar kæmu þá þeim mun seinna fram, sem allir segja þó að sé mjög mikilvægt að komi strax fram? Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin er um þær aðferðir sem hv. þingmaður hefur reifað hér og ég er búinn að hlusta á í gegnum alla umræðuna, bæði 1., 2. og núna 3. umr., að spyrja bara þá sem málið varðar, þá sem skulda og helst þá sem eru í miklum skuldavanda.

Þá kemur spurningin um svarhlutfallið og skekkta niðurstöðu. Hv. þingmaður nefndi einmitt það sem ég er að spyrja að: Til þess að niðurstaðan sé ótvíræð og almenn sátt um hana þarf að spyrja alla, þá þarf að gera heildarúrtak, vegna þess að annars munu einhverjir segja þegar niðurstaðan kemur fram: Svarhlutfallið var ekki nógu gott. Ef í ljós kemur að t.d. einungis 10% heimilanna séu í miklum vanda munu þeir sem halda fram vanda heimilanna staðhæfa að úrtakið hafi ekki verið rétt vegna þess að þeir sem áttu að svara hafi bara ekkert vitað af því að þeir áttu að svara eða að þeir hafi ekki haft tíma til þess vegna þess að þeir voru að vinna svo mikið fyrir skuldunum sínum.

Þetta er alltaf vandamálið þegar menn gera skoðanakannanir eða taka niðurstöður; svarhlutfallið getur skekkt niðurstöðuna vegna þess að það er háð því í hvaða stöðu menn eru. Menn sem eru upp fyrir haus í skuldum eru kannski ekki mikið að sinna svona spurningum utan úr bæ og fylgjast jafnvel ekki með því vegna þess að þeir eru svo uppteknir af því að vinna og borga skuldir sínar.