142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir afskaplega skemmtilega spurningu.

Það sem gerðist í nefndinni — þá vænti ég þess fastlega að hv. þingmaður meini nefndarfundinn sem haldinn var eftir þingfund á fimmtudag — var að við í minni hlutanum stungum upp á því að málið yrði tekið upp á haustþingi og við mundum frekar ræða aðrar útfærslur, svo sem þær sem hv. þingmaður spyr út í. Við gætum þá átt það starf sem virðist ætla að eiga sér stað hér og sem ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir að taka þátt í. Það var fellt með meiri hluta og þar með var fundinum lokið. Það er það sem gerðist í nefndinni.

Hvort það heitir að tefja eða ekki þá finnst mér verið að rugla aftur saman þessu tvennu, hvenær verði lagt í aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar annars vegar og hins vegar hvenær athugaðar verða einhverjar niðurstöður þannig að hægt sé að breyta ferlinu, væntanlega eftir á. Það er einfaldlega ekkert neyðartilfelli og það er allt í lagi að þær tölur komi fram aðeins seinna en aðgerðir stjórnvalda. Þannig er planið ef maður skilur þetta rétt.

Hvað varðar svarhlutfallið er ég sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal ef um er að ræða almenna hagskýrslugerð. Þá er ég algerlega sammála því að svarhlutfallið skipti verulegu máli sem og hvaða hópar hafa tilhneigingu til þess að svara. En þegar kemur að markvissum aðgerðum sem eru ætlaðar hópi sem á við ákveðið tiltekið vandamál að stríða sé ég ekki þörf á því að hafa þessar tölur yfir allan hópinn. Það er það sem ég skil ekki. Ef við ætlum að ráðast á þetta eina vandamál, þetta neyðarástand, skuldavanda heimilanna, skil ég ekki alveg hvernig upplýsingar um mig, þann sem hér stendur, koma þeirri tölfræði við.