142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var sem sagt þannig að stjórnarandstaðan setti fram þá kröfu að málinu yrði frestað og það rætt í byrjun næsta þings. Hún var ekki tilbúin til að vinna yfir helgina eða jafnvel eitthvað fram í vikuna til að klára málið sem hún ætlar hvort sem er að klára í október. Ég sé ekki hvað muni geta komið fram í október sem ekki væri hægt að gera núna um helgina.

Svo er það spurningin með úrtakið og niðurstöðuna. Niðurstaðan þarf að vera trúverðug, menn þurfa að treysta henni. Alhæfingarnar sem hafa verið uppi í þjóðfélaginu um stöðu heimilanna eru mjög miklar, það er stundum sagt að öll heimili séu gjaldþrota, sem er ekki rétt. Ég vil þá biðja menn að undanskilja alla vega mitt heimili. Svona alhæfingar heyrir maður og ef fram kemur niðurstaða sem hentar ekki mönnum sem eru með svona alhæfingar, t.d. að 10% heimila séu í verulega miklum vanda en ekki fleiri, þá kunna þeir að gagnrýna einmitt úrtakið. Þá kunna þeir að gagnrýna að þegar aflað er upplýsts samþykkis næst ekki í þá sem eiga að veita upplýst samþykki, það bara næst ekki í þá. Þá munu þeir segja: Það er ekkert að marka þessa niðurstöðu. Og til hvers er þá öll vegferðin ef niðurstaðan sem við fáum út úr henni er ekki trúverðug?