142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Menn hefðu einfaldlega komist að annarri niðurstöðu með því að ganga skemur en hér er verið að leggja til. Grundvallarmunurinn á því sem var á síðasta kjörtímabili og er á þessu er hvort til stendur að safna upplýsingum til þess að taka ákvarðanir um verulegar efnahagslegar aðgerðir og verulega fjármuni sem varða fjölda fólks. Ef það eru hinir ríku almannahagsmunir sem kalla á upplýsingasöfnun þá lítur upplýsingasöfnunin allt öðruvísi út.

Þess vegna tókum við þessu máli ágætlega þegar það kom hér fyrst fram, eins og til að mynda má finna í ræðu Kristjáns L. Möllers við 1. umr., hygg ég, vegna þess að við höfðum skilið það þannig að taka ætti ákvarðanir um aðgerðir á grundvelli þessara upplýsinga, mikilvægar þjóðhagslegar aðgerðir, stórar efnahagspólitískar aðgerðir.

En nú hefur verið upplýst af sjálfum hæstv. forsætisráðherra að sú ákvörðun sé þegar tekin. Hæstv. forsætisráðherra sagði það síðast í ræðustól í dag að ákvörðunin væri tekin í stjórnarsáttmálanum. Hann lýsti því yfir í síðustu viku að það lægi fyrir hvað þær aðgerðir mundu kosta. Það er því ekki um það að ræða að við þurfum að safna upplýsingum til þess að átta okkur á umfangi vandans eða kostnaðinum við hann. Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið þetta. Það eina sem þarf að gera er að útfæra hvernig á að gera það og þær tillögur eiga að liggja fyrir í nóvember, löngu áður en þessar upplýsingar eiga að liggja fyrir.

Þá spyr maður sig einfaldlega: Er nokkur ástæða til þess að vera að safna þessum upplýsingum fyrst búið er að taka ákvarðanirnar um stærstu aðgerðir í skuldamálum heimilanna fyrr og síðar áður en upplýsingarnar liggja fyrir? Til hvers? Hvaða ríku almannahagsmunir eru þá fyrir hendi?