142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, með síðari breytingum. Þessi umræða á sér orðið nokkra sögu í þingsölum en því miður meira af hendi þeirra sem finna á því vankanta en hinna sem eru sannfærðir um ágæti frumvarpsins. Hér er í raun um að ræða mjög flókið mál. Það er ekki einfalt í nokkrum skilningi því að hér er um að ræða mál sem enginn vefengir í sjálfu sér að gengur á stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífsins en um leið eru menn ósammála um hvort nægilega ríkir almannahagsmunir séu skilgreindir til að unnt sé að víkja þeim réttindum til hliðar.

Þetta eitt og sér er gríðarlega stórt mál, ekki síst vegna þess að hagsmunamatið er okkar. Það er okkar að meta þessa hagsmuni um leið og það er okkar að standa vörð um stjórnarskrána. Við lendum eiginlega í því að verja þennan mikilvæga grundvallarlagabókstaf lýðveldisins um leið og það er okkar að skilgreina hvenær eðlilegt sé á grundvelli einhverra hagsmuna að ganga á þessi sömu réttindi. Það er ekki bara vísað til stjórnarskrárvarinna réttinda til friðhelgi einkalífsins heldur ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu um hið sama. Hér er um að ræða slíkt grundvallarmál að þetta er eitt af því sem samfélög setja sér meginlöggjöf um, þ.e. vernd einstaklinganna, persónanna, gagnvart upplýsingum sem teljast persónulegar. Þess vegna er þetta mikilvægur partur af því trúnaðartrausti sem þarf að vera hornsteinn hvers samfélags, að við borgararnir séum örugg með tilveru okkar og daglegt líf og séum í skjóli með það fyrir einhverjum óskilgreindum stjórnvöldum sem seilast í hinar sömu upplýsingar.

Á sama hátt er þetta líka stórt mál að því er varðar spurninguna um það hverjum er svo í hag að dylja þessi sömu stjórnvöld einhverjum upplýsingum. Í aðdraganda hrunsins og kannski miklu frekar í kjölfar þess hefur verið mjög mikil umræða um að allar upplýsingar þurfi að vera fyrir hendi, að við þurfum að fara úr leyndarhyggju hins lokaða samfélags. Það hefur verið mikil umræða til að mynda um bankaleynd vegna þess að það hefur oft og einatt verið í þágu þeirra sem hafa hag af því að dylja samfélagið upplýsinga að standa vörð um slíkt. Hagsmunirnir þarna togast líka á, hagsmunir þeirra sem vilja gæta að réttindum einstaklinganna til að fá sjálfir að ákveða hvenær þeir láta einhverjar upplýsingar í té og síðan hinna sem af annarlegum ástæðum eða vegna viðskiptahagsmuna eða einhverra tortólskra hagsmuna hafa hag af því að segja ekki frá því sem þeir eru að gera.

Þessi umræða er líka mikilvæg en hún varðar kannski ekki nákvæmlega það sem hér er undir. Við erum ekki að tala um að þær upplýsingar sem hér er leitað eftir fari út á meðal fólks. Við erum að tala um að þær verði á einum tilteknum stað, að á einum tilteknum stað verði til gríðarlega mikið og sögulegt gagnamagn um alla einstaklinga á Íslandi. Þetta er nýtt að því leytinu til að þarna er komið fyrirbæri sem í gagnasöfnunarbransanum er rætt um sem hugsanlega verslunarvöru, nokkuð sem er árennilegt fyrir einhverja sem hafa hug á netárásum eða að gera sér þennan upplýsingabanka að féþúfu. Við erum þar að tala um mjög umfangsmikið og stórt verkefni.

Þetta liggur allt saman í sjálfu sér fyrir í frumvarpinu, þ.e. að það standi til að safna öllum þessum upplýsingum saman á einn stað. Síðan eiga þessar upplýsingar allar saman að vera þarna á þessum eina stað. Til hvers? Þar greinir menn dálítið á. Þá fara menn að tala í tvær áttir. Annars vegar tala þeir um að við þurfum að hafa öll þessi gögn til að meta aðgerðir stjórnvalda. Hins vegar gerist það í þingsal, í nefndinni og víðar, og kannski enn þá meira úti í samfélaginu, að einstakir þingmenn og áhugamenn um þessi mál og um heimsmet forsætisráðherra tala um þetta mál sem eins konar forsendu þess að hægt sé að fara í aðgerðirnar. Þarna eru í raun og veru talsmenn málsins alveg frá byrjun að tala um tvennt.

Af því að hér hefur verið vísað til fyrri áforma fyrri ríkisstjórnar um að gögn liggi fyrir er alveg rétt að það er mikilvægt að það sé sátt um mælikvarða í samfélaginu, hvaða mælikvarðar liggi fyrir, fyrst og fremst vegna þess að það á alltaf eftir að túlka gögnin. Það er alveg sama hvernig gagnanna er aflað og hvernig þeim er safnað, það á alltaf eftir að túlka þau og það er rétt að athuga að ef ágreiningur er um tilurð, markmið og aðferð gagnasöfnunarinnar er nánast öruggt að það verður líka ágreiningur um það hvernig gögnin eru túlkuð. Er þá, bara út af því, verjandi að fara á svig við stjórnarskrárvarin réttindi ef við erum nánast fyrir fram viss um að það muni verða ágreiningur um túlkun á þeim gögnum sem fyrir liggja? Þá erum við ekki að tala um tilganginn vegna þess að hann er þegar reifaður en um túlkun gagnanna gæti orðið ágreiningur.

Ég ætla ekki að reifa hér það sem hv. þm. Helgi Hjörvar hefur nefnt og fleiri hafa vikið að í sínum málflutningi sem er hætta á dómsmálum á grundvelli þessarar löggjafar. Það er umhugsunarefni að það kann að leiða til þess að það verði stórkostlega mikill frestur á því að þetta verkfæri verði til þess gagns sem að minnsta kosti sumir leggja upp með að sé meginmarkmiðið.

Númer eitt eru þessi stjórnarskrárvörðu réttindi og hin heilaga skylda okkar að fjalla mjög varlega um þau. Hagsmunamatið er okkar.

Númer tvö er sú staðreynd að hér er ekki um að ræða forsendur fyrir úrlausn skuldavanda heimilanna og lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda en samt vaka þau rök yfir þegar vegnir eru þessir ríku almannahagsmunir. Þá er sagt sem svo: Ja, þetta er svo mikilvægt, við þurfum að hafa þessar upplýsingar. Þetta er alveg bráðnauðsynlegt til þess að geta uppfyllt heimsmetið.

Svo greinir menn á um hvort þetta sé svo, m.a.s. í hópi stjórnarflokkanna.

Í þriðja lagi er það svo að markmiðin eru ekki nægilega skýr, eins og hér hefur verið reifað, þ.e. til hvers leikurinn sé gerður. Það er ekki ásættanlegt þegar um er að ræða stjórnarskrárvarin réttindi að menn séu bara með einhverjar persónulegar útgáfur af því hvert markmiðið sé. Það þarf að vera mjög skýrt og það er ekki bara að því er varðar íslenska löggjöf heldur líka alþjóðlega samninga. Við höfum ekki leyfi til þess að safna svona miklum, ítarlegum gögnum nema það sé í beinum tengslum við skýr markmið. Einhver smekksatriði um það að við eigum að bæta við hinu og þessu á leiðinni eru ekki boðleg í þessu ljósi þótt það gæti verið gott fyrir okkur á síðari stigum að vera með frekari gögn.

Í fjórða lagi er meðalhófið og það er kannski einn af þeim punktum sem mest hefur verið ræddur hér og var nú síðast umfjöllunarefni í andsvari hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur. Spurningin er einfaldlega þessi: Eru heimildirnar of víðar? Það kom fram í máli hv. þingmanns að heimildirnar þarf að gefa og það þarf að undirbyggja þær með lögum. Það er alveg skýrt, en eru þær of víðar? Það er spurningin. Erum við, miðað við gefin markmið, að gefa of víðar heimildir?

Lögbókin skyldar okkur til þess að gæta meðalhófs í þessu efni. Hún segir ekki bara að við eigum að gera það ef við höfum tíma til þess eða ef okkur langar það, heldur er það einfaldlega þannig að okkur ber að gæta að þessum stjórnarskrárvörðu réttindum með þetta að leiðarljósi. Við getum ekki farið á svig við það öðruvísi en að meðalhófs sé gætt. Þá hafa verið ræddar aðrar leiðir. Við höfum talað um úrtaksleiðina og við höfum líka rætt um að fara leið upplýsts samþykkis. Þar með náum við í raun utan um þetta markmið sem er að búa til loftvog fyrir þennan þátt íslensks efnahagslífs ef það er meginmarkmiðið. Ef við ætlum bara að fylgjast með því hverjar sveiflurnar eru duga þessar leiðir til að ná því markmiði. Annað hefur ekki verið rökstutt. Það hefur ekki verið rökstutt nægilega naglfast að þessar hófsamari leiðir séu ekki fullnægjandi. Þetta vakir eftir, eftir alla þá umræðu sem við erum búin að eiga í þingsal.

Mikið þakklætishjal hefur viðgengist undir þessari umræðu og þess vegna vil ég, þannig að það sé örugglega nefnt við 3. umr., þakka fyrir góða stýringu á nefndinni og málinu öllu saman og það að menn hafa hlustað og tekið tillit. Eftir stendur þó að það var skýr vilji stjórnarandstöðunnar í hverju einasta skrefi að koma til móts við þetta verkefni stjórnarmeirihlutans, þar með talið að skýra markmiðin betur. Ég veit að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir getur tekið undir þá eindrægni sem ríkti í nefndinni hvað þetta varðar og ekki síður þá viðleitni að finna betri leið.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið nokkuð inn í umræðuna og talað um hina undarlegu tímalínu þar sem menn ætla ýmist að flýta eða seinka málinu. Það er vegna þess að við erum að tala um að vera með gögn þar sem við erum samstiga um markmiðið og aðferðina og tökum síður áhættuna af því að vera í ágreiningi frá fyrsta tímapunkti, þ.e. við eigum auðveldara með að sammælast þar af leiðandi um að túlka gögnin.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum og vona að mér hafi lánast að reifa flestar þær efasemdir sem hafa komið upp í umræðunni.