142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og staðfesti þau orð hv. þingmanns að það var mikill einhugur í nefndinni um að bæta þetta mál og reyna að tala sig niður að einhverri skynsamlegri niðurstöðu. En hér erum við komin í dag við 3. umr. þessa máls og getum verið sammála um að samstarfið var gott þótt við hefðum ekki öll verið samferða alla leið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þeirrar umræðu sem aðeins hefur verið komið inn á í dag varðandi fyrri tilraunir til þess að nálgast þetta verkefni. Nú sat hv. þingmaður í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og hér voru lögð fram frumvörp hvað varðaði að safna saman upplýsingum til að rannsaka fjárhagsstöðu skuldugra heimila. Meðal annars var lagt fram mál af hálfu hæstv. þáverandi ráðherra Árna Páls Árnasonar, sem nú er hv. þingmaður, sem er nr. 570 frá 138. löggjafarþingi, þar sem heimildirnar eru miklu, miklu rýmri. Þar átti að sækja upplýsingar frá öllum aðilum sem nánast hægt er að nefna. Þar átti að safna saman upplýsingum um búsetu hér á landi eða hversu lengi hún hefði staðið, það átti að keyra saman gögn og ganga í rauninni miklu lengra en ég tel að við séum að gera með þeirri afmörkun sem nefndin hefur farið í.

Er hv. þingmaður, þegar hann er að tala um að fara einhverja aðra leið, að tala um gagnvart heimildunum sem Hagstofan þarf að fá? Við hljótum þá að vera sammála um að lögfesta þurfi þær heimildir fyrir Hagstofuna. Hversu langt er hv. þingmaður að tala um að ganga? Er hann að tala um að fara þá leið sem við erum að leggja til í þessu frumvarpi? Er hv. þingmaður sammála því að heimildirnar sem verið er að veita séu réttar en bara ósammála afmörkuninni á hópunum? Er það það eina sem út af stendur? Ég hef ekki alveg áttað mig á því í málflutningi stjórnarandstöðunnar hvað það er nákvæmlega. Menn segja að okkur greini lítið á, en síðan áttar maður sig ekki alveg á því þegar hlustað er á ræðurnar hversu langt eða skammt (Forseti hringir.) er á milli. Ég hef sem formaður þrátt fyrir frábært samstarf í nefndinni ekki enn áttað mig á því.