142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru mjög réttmætar spurningar hjá hv. þingmanni og ég þakka fyrir þær.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður hvort það sé mjög skuldavandi yfirleitt. Það er örugglega mikill greiðsluvandi víða, bæði hjá leigjendum og skuldurum. Það er líka greiðsluvandi hjá fólki sem á skuldlausar eignir en er komið með mjög lágar tekjur af því að það er komið á eftirlaun og getur ekki borgað fasteignagjöldin af þessum eignum sínum. Þetta er það sem við vitum ekki. Verið er að gera kröfu til þess af hópum manna sem eru mikið í fjölmiðlum um að gera þetta og hitt. Ég vil bara fá að vita: Hver er staðan? Þegar ég veit það get ég tekið á því. Þetta er ég búinn að vera að biðja um allt síðasta kjörtímabil.

Hversu langt göngum við? Það er einmitt mjög góð og réttmæt spurning. Það er alltaf eitthvað að. Við sjáum það í Evrópusambandinu. Þar er alltaf eitthvað að. Það er alltaf verið að ganga lengra og lengra í átt að nýju ríki vegna þess að það kemur vandi hér og vandi þar og alltaf grípa menn til úrræða sem gera Evrópusambandið að einu allsherjarríki. Hvar stoppum við? Þess vegna er þessi umræða mjög góð og þess vegna eru þetta tímabundnar ráðstafanir.

Það er búið að breyta frumvarpinu mjög mikið, það er búið að laga það og mér finnst mjög miður að stjórnarandstaðan skuli ekki hafa unnið frekar með okkur núna um helgina einmitt til að gera það enn þá betra, einmitt vegna þess að við erum alltaf að ganga lengra og lengra til að leysa þennan eða hinn vandann. Við þurfum að gæta okkur á því að láta ekki mannréttindin líða fyrir hrunið, t.d. slíkar ráðstafanir sem við gerum nú. Þess vegna segi ég að þetta er ekki mitt óskafrumvarp.