142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin þó að við séum ekki alveg sammála. Í fyrsta lagi hefur komið fram í umræðum að þessari gagnasöfnun er ætlað að vinna úr gögnum, þ.e. tölfræðiupplýsingum, hvernig ríkisstjórnum á hverjum tíma væntanlega tekst til, þannig að þetta er ekki forsenda. Þess vegna er tímafaktorinn sem hv. þingmanni verður mjög tíðrætt um — ekki óeðlilegt að frumvarpið sé látið bíða að mínu viti, ef það væri þannig að þetta væri forsenda þá væri það annar handleggur.

Hann talar um leigjendur og það hefði átt að vinna það yfir nótt. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um að það sé svo einfalt mál að hægt sé að leysa vanda leigjenda. Ég er hins vegar sammála honum um að fara þarf í þá vinnu klárlega að finna úrræði til handa leigjendum og skoða stöðu þeirra.

Mig langar í lokin að spyrja hv. þingmann um hvað honum mundi þykja um upplýst samþykki sem fælist til dæmis í því að á vef skattstjóra, þar sem við skilum skattframtölum okkar, væri hnappur þar sem við gæfum þetta upplýsta samþykki og hefðum þá val.