142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að hv. þingmaður hefur ekki hlustað á alla ræðu mína því að ég ræddi einmitt um þetta, um upplýst samþykki og um galla þess ef ekki næst í fólk, eða það veit ekki af því að það á að veita upplýst samþykki — það er nú bara þannig að það er alltaf stór hluti fólks, 10, 20 eða 30%, sem ekki svarar. (BjG: Við erum að tala um að hafa hnapp á heimasíðu skattsins.)(Gripið fram í: Fá niðurstöðurnar …) — Og hver á að gefa það, hver á að veita það, hvernig er fólkið upplýst, hver ætlar að upplýsa það? Og maður sem er hræddur við að veita upplýsingar, hvað gerir hann? Hann segir nei. Það er einmitt hópurinn sem við þurfum á að halda. (Gripið fram í.)

(Forseti (SilG): Engar samræður í þingsal. )

Það er margbúið að ræða markmið með þessum tillögum og þau eru hér í breytingartillögunni. Ég get svo sem lesið þau. Tillögurnar stuðla að því að ákvarðanir um úrræði í þágu skuldugra heimila og lögaðila byggist á traustum grunni, þ.e. þetta á að notast sem slíkt, og fylgjast með framgangi og meta áhrif aðgerða stjórnvalda. Þetta eru markmiðin.