142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mér hafa fundist umræðurnar um þetta frumvarp mjög áhugaverðar og fróðlegt að sitja og hlusta á þær í dag og tvo daga í síðustu viku. Ég á ekki sæti í nefndinni en þykist hafa orðið margs upplýstari við að hlusta á umræðurnar. Það er einmitt það sem ætlunin er með umræðum í þinginu, að viðhorf okkar hér inni breytist hugsanlega pínulítið eða að við sjáum allar hliðar á málinu eða aðrar hliðar á málinu heldur en við gerðum okkur kannski grein fyrir í upphafi, jafnvel þótt við hefðum lesið frumvörp sem lögð eru fram.

Mér er þannig farið að umræðan hefur vakið mig mjög til umhugsunar um það sem þetta mál varðar. Ég hafði reyndar ekki ætlað mér að taka til máls en langar samt að gera það. Ég hef setið eitt kjörtímabil hér og mér finnast þessar umræður svolítið öðruvísi en verið hafa. Ég held að það sé því að þakka að hér er komið nýtt fólk, ungt fólk sem hugsar svolítið öðruvísi en við gömlu brýnin og ég fagna því sérstaklega.

Það deilir enginn um það að frumvarpið fer inn á persónuvernd fólks og stofnunin Persónuvernd hefur varað við því. Þá er það okkar í þessu eins og í öðrum málum að vega og meta og komast að niðurstöðu. Ég held að í þessu máli sé erfitt að komast að einhverri flokkslegri niðurstöðu. Við í Samfylkingunni höfum sagt og ég er hjartanlega sammála því að við ætlum ekki þvælast fyrir tíu punktum hæstv. forsætisráðherra sem voru lagðir fram hér í vor. Eitt af því sem þar kemur fram er að safna þessum upplýsingum. Síðan þegar betur er að gáð og betur er hlustað eftir þá á ekki að byggja á þeim upplýsingum til að koma með úrræðin miklu í nóvember. Upplýsingarnar munu ekki liggja fyrir fyrr en í mars eða maí. Þar með er grundvöllurinn fyrir því að safna öllum þessum upplýsingum á einn stað fallinn.

Þá er annað markmið með upplýsingasöfnuninni. Það er að fylgjast með því hvort þær ráðstafanir sem gripið var til hafi dugað eða hvernig þær tókust. Þá vil ég taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að það er engin neyð. Ef við ætlum að ganga á persónuvernd og ef við ætlum að vera að velta því fyrir okkur hvort það sem við ákveðum hér standist stjórnarskrá eða ekki verður að vera neyð. Við göngum ekki á þá hagsmuni og það öryggi sem stjórnarskráin veitir okkur nema það sé neyðarástand. Það er ekkert neyðarástand sem blasir við eða hvetur til þess að við verðum að samþykkja frumvarpið akkúrat núna til að athuga hvernig ráðstafanir sem gerðar verða í nóvember duga. Þá eru upplýsingarnar ekki til og við höfum einhverjar vikur í viðbót til að finna út hvernig við getum fundið og komið með tæki sem getur mælt áhrifin af ráðstöfununum.

Hér var komið inn á annað varðandi þessa umræðu og vissulega hefur hún dregist nokkuð á langinn, einhverjir mundu kannski kalla það málþóf eða í áttina við það, en ég tel ekki hafa verið svo, alls ekki. Mér hefur fundist að munurinn á stjórnarandstöðunni núna og stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili sé sá að fólkið sem hefur talað núna kemur með lausnir. Það bendir á og spyr: Getum við gert þetta svona eða getum við gert þetta á hinn veginn? Í þeim umræðum sem ég upplifði á síðasta kjörtímabili var stjórnarandstaðan vissulega á móti en að hún hafi einhvern tíma lagt eitthvað til málanna — ég held aldrei. En hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir mun áreiðanlega leiðrétta mig eða mótmæla mér í því.

Á morgun verða greidd atkvæði um þetta mál og ég mun leggja eftirfarandi til grundvallar því hvernig ég mun greiða atkvæði: Í fyrsta lagi verða upplýsingarnar ekki til þegar ráðstafanirnar eiga að koma fram þannig að þessi gífurlega söfnun allra gagna á einn stað er ekki forsenda aðgerðanna. Þá vil ég bæta því við að þegar fólk segir: Þessar upplýsingar eru hvort sem er til og það skiptir engu máli þótt þær séu færðar saman á einn stað, þá er það kallað forvarnir að vera ekki með allar upplýsingar á einum stað. Að hafa þær á einum stað er miklu hættulegra og getur verið auðveldara að ráðast á þær, misfara með þær eða gera annað við þær. Fólk segir: Nei, það gerist ekki hjá okkur. Af hverju gerist það ekki hjá okkur eins og einhvers staðar annars staðar? Af hverju í ósköpunum höldum við að við séum hér í einhverri sóttkví fyrir því að misfara með upplýsingar eða eitt eða annað? Við erum það ekki og við þurfum að átta okkur á því og haga okkur í samræmi við það.

Á morgun verður lögð fram frávísunartillaga og ég segi: Mikið væri það nú skemmtilegt ef hún yrði samþykkt. Nú er ekki nóg með að hér sé komið ungt fólk í alþingissal sem talar öðruvísi en hinir. Það hefur aldrei áður verið jafn ung ríkisstjórn í landinu. Af hverju í ósköpunum sýna þeir ekki líka ný vinnubrögð og segja: Allt í lagi, frestum þessu, ákveðum þetta í október. Það væri flott. Þá væru þeir smart.