142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma á framfæri örstuttum athugasemdum við ræðu hv. þingmanns.

Ég var í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili og ég fullyrði að stjórnarandstaðan hafi lagt fram þingmál sem boðuðu lausnir, bara aðrar lausnir en þáverandi ríkisstjórn var að vinna að. Sem dæmi um mál, sem unnið var vel að í nefnd, eru mál sem fóru í gegnum velferðarnefnd sem til dæmis vörðuðu embætti umboðsmanns skuldara, sem vörðuðu einmitt tilraunir til að reyna að leysa skuldavanda heimilanna. Þar var unnið vel og þétt saman hvort sem menn komu úr stjórn eða stjórnarandstöðu, og ég held að aðrir þingmenn sem sátu í þeirri nefnd geti vitnað um það svo dæmi sé tekið um það vinnulag sem ég tel að hafi líka verið til staðar á síðasta kjörtímabili.

Mig langar að benda hv. þingmanni á að fyrrverandi ríkisstjórn var jafnframt að reyna að leita leiða til að safna saman upplýsingum, safna saman upplýsingum um það hver skuldastaða heimilanna væri og lögðu fram nokkur þingmál í þá veru, m.a. þingmál á þingskjali 961 frá 138. löggjafarþingi, sem var lagt fram af hv. þm. Árna Páli Árnasyni, sem nú er formaður Samfylkingarinnar. Ef menn lesa yfir þær heimildir sem veita átti ráðherra til að safna saman upplýsingum þá er um að ræða mun viðameiri upplýsingar en við erum að tala um í þessu máli, þær heimildir sem við erum að tala um að veita Hagstofunni. Þar var verið að tala um heimildir til handa ráðherra til að safna saman öllum upplýsingum sem mögulegt er að tína til, meðal annars frá sveitarfélögum um veittu fjárhagsaðstoð og aðrar bótagreiðslur. Menn geta kynnt sér það þingskjal en það mál varð ekki að veruleika vegna þess að mönnum þótti of langt gengið. Það var auðvitað þannig en engu að síður var það lagt fram vegna þess að menn voru að leita leiða til þess að nálgast þetta viðfangsefni. Og við þekkjum öll forsöguna að þessu máli. Byrjað var á því að veita Hagstofunni fjárhagsheimildir til að (Forseti hringir.) safna saman þeim upplýsingum sem við erum að tala akkúrat um í dag.