142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hvort tveggja er hárrétt hjá hv. þingmanni, ég var búin að gleyma þessu með velferðarnefndina og samstarf hennar í upphafi þings. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þar var vel unnið. Ég var ekki í þeirri nefnd en ég man eftir því um leið og hún segir það.

Hvað varðar það að lagt hafi verið fram þingmál og 1. flutningsmaður hafi verið hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, já, já, það er alveg rétt en það breytir ekki minni skoðun á þessu máli. (UBK: Að benda á það.) Já, já, það er ágætt að benda á það. En það breytir ekki skoðun minni á málinu.

Ég vil líka benda á það sem mér finnst skipta kannski enn meira máli, það mál fór ekki í gegnum þingið. Það var stoppað í þinginu jafnvel þó að það væri lagt fram af ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það skiptir máli. Það finnst mér líka eiga að skipta máli í því starfi sem við erum í hér, að mál eru lögð fram og sum mál ná ekki fram að ganga. Það má segja: Vitinu var komið fyrir þau, það er allt í lagi að nota slík orð. En það að tveim eða þrem árum seinna sé það, fyrirgefðu forseti, „issue“ að samflokksmaður minn, formaður flokksins míns, hafi lagt fram eitthvert mál og það komi því við hvað ég segi núna í dag, 16. september 2013. Mér finnst það bara ekki skipta máli.