142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við verðum þá að vera sammála um að vera ósammála um að forsaga málsins skipti máli. Ég tel að það skipti máli. Við vorum hér heilt kjörtímabil, öll, sama úr hvaða flokki við komum, að reyna að finna leiðir til að koma til móts við skuldug heimili og við vorum öll sem tjáðum okkur í þingsal á þeim tíma sammála um að okkur vantaði svolítið grunninn (VBj: Við erum enn sammála um það …) til að standa á til að skilgreina vandamálið og skilgreina nákvæmlega (VBj: … sömu leiðindi …) hvert verkefnið væri sem við erum að takast á við. (Gripið fram í.)

(Forseti (SilG): Forseti beinir því til þingmanna að ræðumaður hefur orðið.)

Ég er ekki að reyna að vera með einhver leiðindi út í hv. þingmann, alls ekki. Ég er einfaldlega að benda á að þetta hefur verið sameiginlegt verkefni okkar allra. Það er svo að allsherjar- og menntamálanefnd hefur tekið þetta mál, breytt því í grundvallaratriðum og reynt að nálgast það með þeim hætti að koma til móts við þær athugasemdir sem nefndinni hafa borist og unnið saman að því verkefni, og það er vel. Ég vona að okkur takist áfram að vinna þétt saman og svara þeim stóru spurningum sem fyrir okkur liggja á þessu kjörtímabili.