142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:28]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Frú forseti. Ég vil nú taka það fram að það er búið að vera virkilega gaman að hlusta á umræðuna í dag. Hún er búin að vera málefnaleg, fór aðeins á flug hérna í restina, en það er kannski allt í lagi.

Fyrir mig sem alveg nýjan mann á þingi og nýjan mann í allsherjar- og menntamálanefnd, og ég hef sagt það áður í ræðu, þá er búið að vera gríðarlegur skóli að sitja í gegnum þetta mál. Ég hef verið að reyna að marka mér afstöðu í þessu máli með því að hlusta bara á þá sem komu fyrir nefndina og eins á alla sem starfa í nefndinni. Það sýnist náttúrlega sitt hverjum en mér finnst alltaf aðalniðurstaðan í þessu máli vera sú að sennilega sé verið að brjóta meðalhófsregluna. Meðalhófsreglan er svona, með leyfi forseta:

„Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“

Einhvern veginn finnst mér að það hafi komið fram hér í umræðum og eins í nefndinni að vægari úrræði séu til. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur margoft komið fram með það. Ég er svona að reyna að mynda mér skoðun og taka ákvörðun út frá þessu og eins því að Persónuvernd var algjörlega á móti frumvarpinu. Þeir töldu að það bryti gegn stjórnarskránni og persónuvernd. En þeir sögðu líka alltaf að þetta væri bara pólitísk ákvörðun. Ég er ekki sá bógur enn að þora að ganga gegn því og þess vegna hef ég tekið þátt í því með minni hlutanum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að vera á móti þessu máli eins og það er lagt fram núna.

Fundurinn sem hv. þm. Pétri Blöndal hefur verið tíðrætt um hefur líka verið til umræðu í dag, þ.e. síðasti nefndarfundur. Mér fannst bara eins og þetta hefði verið ákveðið, það hefði verið búið að taka ákvörðun um að þessu máli væri lokið. Það er bara lýðræðið. Ég er lýðræðissinni og ég hef ekkert á móti því, meiri hlutinn ræður, það er alltaf þannig. Ég er samt ekki tilbúinn að taka þátt í að samþykkja þetta frumvarp eins og það er. Það þá náttúrlega meiri hlutans á morgun að samþykkja það, það er ekkert við því að gera.

Eins hefur mikið verið talað um það, ef þessi leið yrði farin, að láta fólk bara velja það sjálft hvort það vilji gefa upplýsingar. Eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal mundu allt að 10–30% ekki taka þátt. Ef fólk vill ekki taka þátt í því þegar á hjálpa því þá er því ekki við bjargandi, það er nú bara þannig. Það er ósköp einfalt mál.

Ég hef tekið það fram hér í umræðum að ég vil hjálpa ríkisstjórninni eins mikið og hægt er að leiðrétta forsendubrestinn. Ég er alveg tilbúinn til þess en ég er ekki tilbúinn að ganga alveg svona langt, nóg er nú samt. Ég hef líka haft eftir ríkisskattstjóra að allar þessar upplýsingar séu til staðar. Það kom fram á fundum okkar þegar fulltrúar Hagstofunnar töluðu að þeir ætluðu að nota þessar upplýsingar til að grípa inn í ef stefndi í eitthvað alvarlegt í efnahagsmálum, ef vandinn færi að aukast væri hægt að grípa inn í, þá gætu stjórnvöld gripið inn í.

Við höfum leyfi í lýðræðisþjóðfélagi til að fara okkur að voða ef við viljum. Mér hefði þótt það gott þegar ég var virkur alkóhólisti að hafa einhvern á bakinu á mér til þess að — [Þingmaðurinn smellir fingrum.] Það hefði getað sparað mér helling og ríkinu líka, en þetta er bara ekki þannig. Ég hef rétt á því að fara mér að voða.

Ef ég má vitna hérna í Þorvarð Tjörva Ólafsson, sem vinnur hjá Seðlabankanum, þá sagði hann á Eyjunni 10. september:

„Nýjar tölur Hagstofu Íslands undirstrika að umfang skuldavanda heimila eftir efnahagshrunið fer minnkandi. Með sama áframhaldi verður staðan eftir nokkur ár svipuð og hún var undir lok síðustu aldar, þegar um 10 þúsund heimili áttu í vanda vegna íbúðaskulda. Íslenskum heimilum sem hafa neikvætt eigið fé í fasteign sinni hefur fækkað um tæplega 7.500 síðan fjöldi þeirra náði hámarki 2010.

Um 17.800 heimili voru með neikvætt eigið fé í fasteign sinni í árslok 2012, borið saman við um 25.300 heimili 2010, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins. Heimili í þessari stöðu hafa ekki verið færri síðan 2008.“

Ég mundi nú segja að það væri greinilega mikið að gerast í sambandi við skuldavanda heimilanna. Þrátt fyrir að síðasta hæstv. ríkisstjórn hafi verið talin ein sú versta í sögunni af mörgum er greinilegt að hún gerði einhverja góða hluti. (Gripið fram í: Ekki …) (Gripið fram í: Hæstiréttur.) Já eða Hæstiréttur, hvað sem er.

Ég leit svo á að það væri húsnæðisvandi sem við værum að einblína á, það væri verið að ná tökum á skuldavanda heimilanna vegna húsnæðiskaupa — það kemur engum við hvað ég skulda umfram það — og allar þær upplýsingar koma fram á skattskýrslunni. Mér er ekkert sama um að verið sé að krukka eitthvað í hvað ég skulda hinum og þessum eða hverjar mínar neysluskuldir eru. Eigum við að fara að greiða niður neysluskuldir fólks? Það er vitað að stór vandi heimila er bara neysluskuldir. Við eigum ekki að taka þátt í að leiðrétta þær. Hver er sinnar gæfu smiður í því.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég þakka fyrir þær ræður sem voru haldnar hér í dag. Það var mjög gott að hlusta á hv. þm. Pétur Blöndal sem ég hef miklar mætur á og hef alltaf haft þótt hann sé sjálfstæðismaður. [Hlátur í þingsal.] Ég get alveg viðurkennt það hér að sjálfstæðismenn hafa ekkert verið í miklu uppáhaldi hjá mér í gegnum tíðina, en eftir því sem ég kynnist þeim betur eru þeir bara ágætisgrey. Ég vil bara þakka honum fyrir. Eins og ég hef tekið fram hefur umræðan hjálpað mér gríðarlega til að átta mig á þessu máli þó að ég sé engan veginn fullnuma. Ég vil líka þakka framsögumanninum, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir frábært starf. Ég tek ofan fyrir henni sem nýjum þingmanni, hvernig hún hefur höndlað þetta, þetta er ekkert létt, en hún hefur staðið sig gríðarlega vel og eins formaðurinn okkar, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Ég fékk að prófa það sem varaformaður þessarar nefndar og það er ærinn starfi fram undan.

Það er atkvæðagreiðsla um málið á morgun og hún fer bara eins og hún fer. Lýðræðið virkar, það er aðalatriðið.