142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[18:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna og sömuleiðis fyrir samstarfið í nefndinni sem var mjög gott. Við áttum mjög upplýsandi samtöl og fundi innan nefndarinnar.

Mig langar að koma örstutt að því vegna orða hv. þingmanns að auðvitað eru ýmsar upplýsingar sem hægt er að nálgast í gegnum skattkerfið en fram kemur í gögnum málsins og hefur komið fram á fundum nefndarinnar að hér er um að ræða upplýsingar sem hægt er að safna saman oftar og fá upplýsingar um greiðslueiginleika lánsins. Það eru þessir tveir þættir sem ekki eru mögulegir ef við ætlum bara að styðjast við þær upplýsingar sem fram koma hjá skattinum. Þetta eru stóru drættirnir og grundvallaratriðin.

Við erum þá bara sammála um að vera ósammála um niðurstöðu málsins og um það með hvaða hætti við ætlum að nálgast þetta stóra verkefni. Engu að síður teljum við mikilvægt að afla okkur upplýsinga um hver staðan er og þá ekki eingöngu gagnvart skuldavandanum heldur skulda- og greiðsluvanda, eins og fram kemur í markmiðinu. Komið hefur fram í umræðunni, m.a. hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem er í uppáhaldi hjá þingmanninum, að greiðsluvandinn er auðvitað sá vandi sem við teljum að sé það sem við höfum minnstar upplýsingar um eins og staðan hefur verið undanfarin ár.