142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ölvunarakstur er dauðans alvara. Þessi orð eru mér ofarlega í huga eftir að hafa horft á Kastljóssþátt gærkvöldsins en þar var fjallað um þær skelfilegu afleiðingar sem ölvunarakstur getur haft. Í þættinum var fjallað um þær hörmulegu afleiðingar sem ölvunarakstur getur haft á líf fjölskyldna og einstaklinga. Ölvunarakstur hefur hörmulegar afleiðingar bæði fyrir þá sem verða fyrir slysinu og valda því og aðstandendur þeirra.

Í þættinum kom fram að 624 einstaklingar hafa verið teknir fyrir ölvun við akstur frá 6. apríl sl. og einnig kom fram að 49 einstaklingar hafi látið lífið sökum ölvunaraksturs á síðustu 15 árum. Þá eru þeir ekki taldir með sem hafa örkumlast og lifa nú við skert lífsgæði.

Ölvunarakstur er því miður bláköld staðreynd í þjóðfélaginu okkar og því miður allt of algengur. Ölvunarakstur og áhrif hans á fjölskyldur og einstaklinga er hræðilegur. Það er skelfilegt fyrir fjölskyldur að horfa á eftir ástvinum sínum sem láta lífið sökum þessa og einnig er sárt að horfa upp á aðstandendur geranda í svona málum því að þeir finna virkilega til.

Virðulegur forseti og hv. þingmenn. Ég legg því til, þar sem við höfum löggjafarvaldið í samfélaginu, að við endurskoðum þau lög er snúa að refsiákvæði varðandi ölvunarakstur með það að markmiði að þyngja dóma og setja á enn hærri sektir í þeirri von að það hafi eitthvað að segja í baráttunni gegn ölvunarakstri.

Mín hugmynd er að fara svipaða leið og farin er víða á Norðurlöndunum, m.a. í Finnlandi, þar sem hluti sektargreiðslna vegna ölvunaraksturs fer í forvarnasjóð til að vinna að forvörnum gegn ölvunarakstri. Ég legg til, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, að við förum í þá vinnu að endurskoða þessi refsiákvæði því að eins og ég sagði í upphafi: Ölvunarakstur er dauðans alvara.