142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Frú forseti. Löggæslan er ein af grunnstoðum samfélagsins. Við viljum öll að öryggi íbúa sé tryggt sem og lögreglumanna. Löggæslan er víða orðin mjög brothætt. Það gerist of oft að lögreglumenn hafa ekki mannskap til að sinna útköllum þar sem þeir eru uppteknir annars staðar við skyldustörf. Ég vildi sjálf ekki þurfa að standa frammi fyrir því að velja milli þess að sinna líkamsárás á einum stað eða slysi á öðrum, sem dæmi.

Lögregluumdæmin í landinu hafa sín sérkenni. Við þingmenn í Suðurkjördæmi funduðum með forsvarsmönnum löggæslunnar í kjördæminu í síðustu viku og fengum gagnlegar upplýsingar. Á fundinum kom meðal annars fram að samvinna milli umdæma væri mjög góð og menn væru að vinna mjög mikið og óeigingjarnt starf og því ber að hrósa.

Helstu sérkenni lögregluembættisins á Suðurnesjum eru þau að þar fer mikið fjármagn til landamæragæslu, þjónustu og móttöku við hælisleitendur. Umferð um flugstöðina hefur aukist gríðarlega mikið hin síðari ár enda höfum við lagt áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustu. Við verðum að mæta þessari auknu umferð með auknu fjármagni í eftirliti á flugstöðinni. Ég vil draga þetta atriði sérstaklega fram. Hið sama má segja um umferðareftirlit og almenna löggæslu um land allt. Við verðum að tryggja öryggi okkar og gesta okkar með öflugri löggæslu.

Suðurland einkennist af miklum vegalengdum, sumarhúsum, ferðamannastraumi og viðvarandi náttúruvá og miklum fjarlægðum á milli þéttbýlisstaða.

Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra er vel upplýst og hennar vilji er að efla löggæsluna um land allt. Ráðherra hefur þegar gefið leyfi fyrir ráðningu tveggja lögreglumanna sem verða staðsettir á Vík í Mýrdal. Nú er það okkar allra að leggja okkar á vogarskálarnar til að tryggja þessar stöður í fjárlögum næsta árs sem og eflingu löggæslunnar um land allt.