142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlega var hrundið af stað herferð þar sem landsmenn eru hvattir til að skýra frá leyndardómum Íslands í því skyni að laða að aukinn fjölda ferðamanna utan háannatíma. Þessi herferð er unnin á svipaðan hátt og önnur fyrri sem kallaðist Inspired by Iceland. Þó er mér ekki kunnugt um að sérstök könnun eða vísindaleg rannsókn hafi farið fram á áhrifum af þeirri herferð, enda er skortur á rannsóknum í ferðaþjónustu akkilesarhæll greinarinnar.

Allar vonir standa til að ferðamennskan verði ein af höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar til langrar framtíðar og því ber okkur að varast að hugsa til skamms tíma í einu. Okkur liggur ekki á að fá ótölulegan fjölda ferðamanna til Íslands heldur þurfum við að fá hingað til landsins þann fjölda gesta sem við getum þjónustað og þann fjölda gesta sem líklegur er til að skilja eftir sem mestan ábata og þá ferðamenn sem eru líklegir til þess að umgangast náttúru landsins af virðingu og varúð.

Ég beini því þeim varúðarorðum til landsmanna að þeir hugsi sig um áður en þeir ljóstra upp um lítt þekktar viðkvæmar náttúruperlur sem líklegt er að geti orðið fyrir skaða af auknum ágangi ferðamanna, einkum þegar aðgengi að þeim liggur um ósnert víðerni eða viðkvæmt gróðurlendi. Við skulum fara varlega, frú forseti.