142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég er kominn hingað til að tala um væntanleg störf þingsins. Ferðaþjónustan er í uppvexti eins og kom fram í ræðunni á undan og ég ætla að fjalla um það sem fleiri þingmenn hafa fjallað um í dag, þ.e. öryggi ferðamanna. Nú sjáum við fram á að ferðamönnum fjölgi töluvert. Við settum 1 milljarð í að auglýsa og markaðssetja landið til að fá fleiri ferðamenn, en við gleymdum alveg að setja fjármuni í að tryggja öryggi þeirra ferðamanna. Við þurfum að tryggja öryggi þeirra ef við ætlum að fá þá aftur eða fá þá til að þora að koma.

Lögregla, heilbrigðisstofnanir og björgunarsveitir úti um allt land eru nú að sinna ferðamönnum. Menn eiga að vera í stakk búnir til þess en vita ekki hve margir ferðamenn eru á svæðinu hjá sér. Íbúatölur í mörgum bæjarfélögum margfaldast yfir sumarið af fjölþættum verkefnum. Sjáum Suðurnesin, þar þarf lögreglan að standa vörð um að fólkið komist inn í landið, sinna gæslunni þar, en líka tryggja þessu fólki öryggi í umferðinni til og frá flugvellinum, hún er einnig með stærsta ferðamannastað landsins í umdæmi sínu og svo tengjast Almannavarnir þessu. Þetta á líka við á Selfossi þar sem 63% frístundabyggðar á Íslandi eru staðsett. Menn vita aldrei hve margir eru staðsettir þarna í einu.

Björgunarsveitirnar eru enn að bjarga ferðamönnum og þegar við ræðum um að bjarga náttúruperlunum okkar, taka gjald af ferðamönnum til að byggja þær upp, verðum við að muna eftir öryggi þeirra líka. Við skulum muna eftir því að setja fjármuni í að tryggja öryggi ferðamanna þegar við ræðum ferðamannapassa eða gjald á ferðamannastöðum.